138. löggjafarþing — 135. fundur,  10. júní 2010.

aðild að spillingarsamningi Sameinuðu þjóðanna.

652. mál
[14:29]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég tel að í þessari ágætu ræðu hv. þm. Birgis Ármannssonar felist stríð áskorun til þingsins um að herða mjög þau ákvæði sem er að finna í frumvarpi hæstv. forsætisráðherra. Ég get auðvitað lagt honum lið í þeirri baráttu. Hv. þingmaður var framsýnn og hann kemur beint að kjarna hlutanna. Það getur vel verið að það sé rétt hjá honum að hv. Alþingi eigi að taka miklu harðar á þessum málum. Ég get þá heitið honum stuðningi mínum við allar þær hugmyndir sem hann mun beita sér fyrir, bæði innan þings og í þingnefndinni sem ég veit að hv. þingmaður á sæti í.

Hv. þingmaður vill spyrja mig út úr frumvarpi hæstv. forsætisráðherra um þetta efni. Það vill svo til að ég hef kynnt mér það ákaflega vel í aðdraganda þessarar umræðu. Hv. þingmaður spyr hvað ég telji, í frumvarpinu og siðareglunum, að geti leitt til þess að komið sé til móts við forsendur fyrir staðfestingu samningsins. Hæstv. dóms- og mannréttindaráðherra gerði eitt atriði að sérstöku umræðuefni í framsögu sinni áðan. Ég hjó sérstaklega eftir því vegna þess að hann notaði þar nýyrði sem ég hafði að minnsta kosti ekki hoggið eftir áður í umræðunni. Hæstv. ráðherra talaði um nauðsyn þess að stemma stigu við áhrifakaupum. Í frumvarpi hæstv. forsætisráðherra kemur það einmitt skýrt fram að siðareglunum er ætlað að vinna gegn því, reyndar með tvennum hætti eins og ég veit að hv. þingmaður þekkir mætavel. Ég vænti þess að við hv. þingmaður getum orðið sammála um að það sé a.m.k. hægt að finna eitt mjög gott nothæft atriði í frumvarpi hæstv. forsætisráðherra.

Í öðru lagi erum við sammála um að við ætlum að standa saman í þeirri baráttu sem hugsanlega, í kjölfar ræðu hv. þingmanns, kann að vera nauðsynlegt að leggja í til að gera frumvarpið miklu harðara. Ég hef alltaf verið fylgjandi hv. þingmanni þegar hann vill skera upp herör gegn spillingu, þar eigum við að minnsta kosti samstöðu vísa.