138. löggjafarþing — 135. fundur,  10. júní 2010.

tekjuskattur.

659. mál
[17:28]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri H. Blöndal fyrir. Við erum bara sammála. Það er ekkert flókið. Ég held að það sé alveg skýrt að það er einhver hugsanavilla í lögunum sem við eigum að leiðrétta. Okkur mun kannski ekki vinnast tími til þess að gera það með einhverjum skynsamlegum hætti núna en við þurfum auðvitað að gera það.

Ég hef heldur engar sérstakar áhyggjur af því þó að fyrirtæki græði eitthvað á niðurfellingu skulda vegna þess að við þurfum einmitt á því að halda að fyrirtæki komist aftur af stað og fari að ráða fólk. Ég hygg því að jafnvel sé hægt að leiða rök að því að þegar upp er staðið muni ríkissjóður græða töluvert miklu meira á þeirri aðgerð en nemur hugsanlegu tekjutapi af slíkri niðurfærslu vegna þess að annars vegar munu sparast gríðarleg útgjöld er viðkoma atvinnuleysisbótum og hins vegar, sem er ekki síður mikilvægt, munu þessir starfsmenn eða fólk sem fær vinnu byrja að borga tekjuskatta og byrja kannski að taka þátt í því að hjól einkaneyslunnar fari aftur af stað. Ég held að þetta snúist um það.