138. löggjafarþing — 137. fundur,  11. júní 2010.

tekjuskattur.

506. mál
[13:25]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Við ræðum hér það atriði að menn geti dregið frá skatti ákveðinn hluta af viðhaldskostnaði. Það þýðir að í einni og sömu blokkinni getur einn fengið 23% af upphæðinni af því að hann er með mjög háar tekjur, annar fær 20%, þriðji 18,5% og sá fjórði, sem er undir skattleysismörkum, fær ekki neitt.

Þetta finnst mér ósanngjarnt og ég hef lagt til að það verði skoðað í nefndinni að allir fái 20% af upphæðinni til frádráttar sama hvaða tekjur þeir hafa. Ég er svo félagslega sinnaður, frú forseti.

Ég legg til að málið verði tekið aftur inn í nefnd og hún skoði, þrátt fyrir frumvarp ríkisstjórnarinnar, að frumvarpið verði dálítið félagslegra. Af því að ríkisstjórnin vill það ekki taki nefndin málið í sínar hendur og geri það félagslegra þannig að allir fái sömu upphæð fyrir sömu framkvæmdir.