138. löggjafarþing — 137. fundur,  11. júní 2010.

fjármálafyrirtæki.

343. mál
[13:47]
Horfa

Árni Johnsen (S):

Virðulegi forseti. Það mál sem hér er til umfjöllunar er allt í lausu lofti en nú er ekki til setunnar boðið og þess vegna er málið flutt. Hvort menn hafa skilgreint það nægilega til árangurs skal ég ekki segja en það er meira en bagalegt fyrir íslenskt samfélag og þjóðfélagið í heild, atvinnulífið og heimilin, að það mál sem nú verður vélað um skuli ekki hafa komið fram fyrir löngu og skuli ekki hafa verið afgreitt til úrvinnslu. Í viðbótarákvæði til bráðabirgða, sem hér er til umfjöllunar, er nýtt ákvæði þar sem segir, með leyfi forseta:

„Einnig leggur meiri hlutinn til að efnahags- og viðskiptaráðherra skipi nefnd sem hafi það hlutverk að móta stefnu um framtíðaruppbyggingu fjármálakerfisins með hliðsjón af ábendingum í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, væntanlegum tillögum þingmannanefndar Alþingis um nauðsynlegar lagabreytingar og þeim breytingum sem gerðar hafa verið á lagaumhverfi fjármálageirans eftir fall bankanna. Meðal atriða sem nefndin leggur til að verði skoðuð eru staða og starfsumhverfi sparisjóða, eignarhald fjármálafyrirtækja á vátryggingarfélögum og öfugt, reglur um hámarkseignarhlut í fjármálafyrirtæki og hugmyndir um hvernig best verði hægt að tryggja dreift eignarhald, og hvort skilja beri að starfsemi fjárfestingarbanka og viðskiptabanka.“

Þetta eru allt atriði sem við sjálfstæðismenn höfum lagt áherslu á að taka yrði upp í uppstokkuninni. Það hefði betur verið gert fyrr. Það er tómt mál að tala um þann þáttinn heldur hve mikilvægt er að tekið verði fast og ákveðið á þessum efnum og gerðar skilmerkilegar skilgreiningar, uppsetningar á möguleikum og öðru sem lýtur að lausn í þessum málum. Það hefur ekkert verið skoðað í uppstokkun fjármálakerfisins um stöðu sparisjóðanna, ekkert um skuggastjórnendur, ekkert um aðskilnað viðskiptabanka og fjárfestingarbanka — þetta eru allt lykilatriði í því að hægt sé að ná tökum á fjármálakerfinu og binda það ekki allt í hers höndum eins og hæstv. ríkisstjórn gerir um þessar mundir. Það er helkuldi í viðskiptalífinu og hallar á í nánast öllum greinum athafnalífsins, hvort sem það eru lítil verktakafyrirtæki eða stór, stærstu fyrirtæki landsins eða önnur sem vega mjög þungt í atvinnusköpun í landi okkar.

Það er sorglegt að nú, rúmlega ári eftir að ríkisstjórnin tók við völdum, sé verið að ganga til verka í þessum efnum. Í millitíðinni hefur flætt undan þorra fyrirtækja landsins, flætt undan heimilum landsins og eðlilegum drifkrafti í snúningi athafnalífsins. Dæmi um það er að verktakar landsins hafa á undanförnum missirum hrunið niður hver á fætur öðrum. Hvers vegna? Vegna þess að fjármálakerfið er upp í loft, vegna þess að bankakerfið og stjórnendur þess, í skjóli ríkisstjórnarinnar, sinna ekki eðlilegum skyldum og verkþáttum sem eru lykillinn að því að það verði ákveðið peningastreymi, ákveðið blóðflæði í athafnalífi landsins.

Virðulegi forseti. Í rauninni ætti ríkisstjórnin að standa fyrir því að segja upp nú þegar skilanefndum bankanna, segja þeim upp með u.þ.b. þriggja vikna fyrirvara og flýta þeim aðgerðum sem þarf að gera, án þess að það tengist, eins og gerst hefur, of mikið útrásarbraskinu, hruninu, baráttu fyrir réttindum þeirra sem lengst gengu og mest sköðuðu — þessar tengingar hafa verið augljósar inni í bankakerfinu í gegnum skilanefndirnar. Þetta hefur verið augljóst. Þetta hafa skilanefndirnar komist upp með vegna þess að hæstv. ríkisstjórn bara biður guð að hjálpa sér og segir: „Ja, nú – er þetta svona? Ég get ekkert gert.“ Þetta eru viðtekin ummæli hæstv. forsætisráðherra þegar bent hefur verið á það sem farið hefur úrskeiðis og er fyrir neðan allar hellur og ofbýður fólkinu í landinu. — Segja upp skilanefndum bankanna með þriggja vikna fyrirvara og taka til við að smúla dekkið og koma hrygg í það kerfi sem fjármálakerfið á að vera gagnvart íslenskri þjóð, gagnvart heimilunum, atvinnulífinu og öðrum þáttum sem eru grundvöllurinn fyrir hagrekstri okkar. Þetta hefur farið úr böndunum og þetta er að hverfa.

Nú síðast, af því að ég nefndi verktakadæmið, var eitt rótgrónasta fyrirtæki landsins á sviði verktaka, Ræktunarsamband Skeiða og Flóa, að segja upp öllum starfsmönnum sínum með stuttum fyrirvara. Þar stefnir í lok, lok og læs vegna þess að ríkisstjórnin grípur ekki í taumana. Hún grípur ekki í taumana. Hún þegir þunnu hljóði. Hún deilir innbyrðis um alls konar pjattmál sem engu máli skipta. Hún leggur áherslu á að afgreiða hluti sem engu máli skipta. En höfuðmálin víkja undir koddann og svo sefur ríkisstjórnin vært á þeim sama kodda þegar landið allt — atvinnulífið í landinu, heimilin í landinu — titrar af óvissu, ótta og óöryggi. Það er ekki gott fyrir neina þjóð að búa við þessar aðstæður.

Það er mikilvægt að taka til hendinni á þann hátt sem um getur í þessu viðbótarbráðabirgðaákvæði, sem til að mynda sjálfstæðismenn hafa barist mjög harkalega fyrir að komi til meðferðar og til afgreiðslu og til verklags í framgangi málsins. Þetta eru hlutir sem við verðum að tryggja. Við erum alltaf með þessa sömu björtu von og segjum: „Þetta lagast vonandi“, en það lagast ekki. Það lagast ekkert, virðulegi forseti, fyrr en ríkisstjórnin viðurkennir að hún er búin að vera. Hennar tími er liðinn. Hennar tími var liðinn sama dag og forseti Íslands neitaði í ársbyrjun að skrifa undir lög sem ríkisstjórnin hafði knúið í gegn á hæstv. Alþingi. Við þekkjum öll framhaldið. Þegar þetta lá fyrir var þessi ríkisstjórn geðlaus og náttúrulaus til verka á pólitískum vettvangi, til hagsbóta fyrir íslenska þjóð.

Það er eins og það hafi raðast í þessa framvarðarsveit, þessa línu sem er að baksa við að vera í stjórnarforustunni, skortur á verksviti, skortur á reynslu og skortur á þori. Það hefur aldrei skilað árangri að vinna á þann hátt, aldrei. Margir ágætir stjórnarsinnar hafa verið að brýna forustumenn sína til góðra verka og knýja fram ákveðinn takt sem skilar árangri, ákveðið verklag sem skilar árangri. Þó menn hafi ekki verið sammála um alla slíka þætti skiptir mestu máli að taka af skarið. Það er betra að taka af skarið í svona stöðu — og taka áhættu af því að gera einhver mistök og leiðrétta þau þá þegar þar að kemur og færi gefst til — en að gera ekki neitt.

Óvissan, virðulegi forseti, sem ríkir í íslensku þjóðfélagi í dag, er lamandi. Þetta er lykillinn að því, eða lyklaleysið að því, að í dag er enginn leiðtogi á Íslandi. Hvaða þjóð lifir það af til lengdar að hafa ekki leiðtoga? Við eigum nokkra leiðtoga sem eiga að vera vakthafandi í stöðunni þegar á reynir. Hæstv. forsætisráðherra á að vera leiðtogi okkar í stjórnmálastýringunni. Hæstv. forsætisráðherra er enginn leiðtogi. Það vita allir og eru farnir að skilja að þetta byggðist allt á einhverjum falsvonum og væntingum sem áttu sér ekki stað í reyndinni. Það er leitt að þurfa að taka svona til orða en það er vægt til orða tekið miðað við alvöru málsins.

Forseti vor, hann er ekki leiðtogi landsins í dag. Hann braut brýr að baki sér án þess að gera upp þau mál sem um var að ræða. Hann þarf að eyða miklum tíma í það núna að verjast alls konar hundakúnstum sem hann stóð sjálfur fyrir sem höfuðklappstýra útrásarliðsins svokallaða. Meira að segja biskupinn yfir Íslandi, herra kirkjunnar og herra okkar í þeim efnum, heldur sig til hlés og fer ekki fram sem sá leiðtogi sem kirkjan á að vera að mati margra Íslendinga þegar illa árar og harðræði sækir að, þegar óvissa, þegar vanlíðan, þegar allt titrar í umhverfinu og menn vita ekki hvað snýr norður, austur, vestur eða suður án þess að efast.

Þetta er í hnotskurn staða okkar í dag og því skiptir öllu máli að tryggja uppstokkun fjármálakerfisins, tryggja að þau mistök sem gerð hafa verið á undanförnum árum verði ekki endurtekin og verði ekki möguleg — eins og sýnt er að til að mynda skilanefndir bankanna eru að gera með því að hleypa mönnum inn í ákveðna þætti og gefa þannig færi á áframhaldandi naglasúpu sem ekkert er hægt að byggja á.

Virðulegi forseti. Ég vil árétta að þótt margt sé á borðinu í þeirri tillögu sem hér um ræðir, sem þarf virkilega að fylgja eftir af metnaði, öryggi og framsýni, er það fljótvirkasta í stöðunni nú þegar að segja skilanefndum bankanna upp með stuttum fyrirvara og koma til verka öðru fólki sem klárar hlutina en hugsar ekki bara um að vera á ofurlaunum við að reka alls kyns fyrirtæki sem skilanefndunum er ekki ætlað að gera.