138. löggjafarþing — 137. fundur,  11. júní 2010.

fjármálafyrirtæki.

343. mál
[16:42]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Í fyrri ræðu minni í dag um þetta merka mál, breyting á lögum um fjármálafyrirtæki, fór ég nokkuð ítarlega yfir bráðabirgðaákvæðið, eða réttara sagt tillögu að breytingum sem kveður á um að efnahags- og viðskiptaráðherra skuli skipa nefnd sem hafi það hlutverk að móta stefnu og framtíðaruppbyggingu fjármálamarkaðanna. Nefndinni eru falin ýmis hlutverk. Ég vil gera athugasemd við eitt og það er að í nefndarálitinu kemur fram að efnahags- og viðskiptaráðherra muni skipa tvær nefndir, önnur þeirra eigi að endurskoða lög um Seðlabanka Íslands og hin lög um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Að fengnum niðurstöðum þessara nefnda verði hægt að taka afstöðu til þess hvort breytingar verði gerðar á verksviði stofnananna eða hugsanlegum samruna.

Það er kannski að verða ljóst af þeim ræðum sem ég hef haldið hér á hinu háa Alþingi að ég tel að það beri að sameina fjármálaeftirlit og seðlabanka. Það sem mig langaði til þess að minnast á er að ég er hræddur um að svipuð staða gæti komið upp og núna er í aðgerðum sem varða skuldavanda heimilanna, þar sem hin og þessi frumvörp með hinum og þessum aðgerðum voru sett inn í hinar og þessar nefndir þannig að menn voru að lokum búnir að missa yfirsýn yfir hvað hver var að gera. Hér þurfti að setja á fót nefnd sem á milli okkar alþingismanna gengur undir nafninu „samræmingarnefnd“, sem á að reyna að samræma öll þau frumvörp og gjörninga sem verið er að reyna að koma í gegnum þingið svo út komi eitthvað heildstætt til þess að hjálpa heimilunum í þeim mikla vanda sem nú steðjar að þeim vegna stökkbreytinga skulda og þess forsendubrests sem varð hér haustið 2008.

Þess vegna tel ég að hættan sé sú að svipað vandamál gæti skapast þar sem ein nefndin veit ekki hvað önnur er að gera og að lokum komi út úr því einhverjir furðulegir hlutir sem muni e.t.v. verða okkur til ógagns í framtíðinni. Ég legg því til að nefndinni sem efnahags- og viðskiptaráðherra skal skipa og kveður á um í breytingartillögum í nefndarálitinu, nefndinni um starfsemi Seðlabankans, og þeirri þriðju sem endurskoðar lög um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi verði skotið saman. Í þá nefnd setjist færustu sérfræðingar, innlendir og erlendir, og hún fái þann sess sem verkefnið endurspeglar. Með því tel ég að við getum komið á skynsamlegri stefnu um framtíðaruppbyggingu fjármálakerfisins og sá reglugerða- og lagarammi sem umlykur fjármálamarkaði geti verið með því besta sem þekkist. Það er mikilvægt að nefndin leiti eftir því hvað sé að gerast alþjóðlega á þessu sviði til þess að þær reglur verði valdar sem bestar þykja í heiminum í dag.