138. löggjafarþing — 138. fundur,  12. júní 2010.

þjóðaratkvæðagreiðslur.

112. mál
[18:17]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að þetta sé eitthvað sem við þurfum að velta fyrir okkur. Í sveitarstjórnarkosningunum í Hafnarfirði skilst mér að þriðji stærsti hópur kjósenda hafi skilað auðum eða ógildum atkvæðaseðlum. Þar kom mjög skýrt fram að kjósendur, ég held allt að þriðjungur kjósenda, voru mjög ósáttir við það sem var í boði. Þá hefði maður getað hugsað sér að þeir kjósendur hefðu getað merkt við þann valkost að þeir vildu ekki kjósa neitt af því sem var í boði og þar með hefði vilji þeirra komið skýrar fram.

Ég vonast líka til þess að við veltum því aðeins fyrir okkur að reyna að samræma betur á milli talningarstaða, hvað er það sem gerir atkvæðaseðil gildan og hvað gerir hann ógildan? Í því sveitarfélagi sem ég bý í bauð Framsóknarflokkurinn t.d. ekki fram í þarsíðustu sveitarstjórnarkosningum en fékk eftir sem áður eitt atkvæði því að einhver skrifaði stórt X-B á einn atkvæðaseðilinn. Það hefði kannski verið gaman ef hægt hefði verið að upplýsa það formlega frá kjörstjórninni en ekki bara úr þessum ræðustóli.

Ég velti líka fyrir mér ástæðunni fyrir því að tekin er ákvörðun um að telja á einum stað, ég veit að þetta hefur verið aðeins rætt. Í ákveðnum tilvikum gæti verið mjög áhugavert að sjá hvort í þjóðaratkvæðagreiðslum er munur á milli kjördæma, það kæmi fram ef talið væri í kjördæminu en ekki bara á einum stað eins og lagt er til í frumvarpinu.