138. löggjafarþing — 138. fundur,  12. júní 2010.

þjóðaratkvæðagreiðslur.

112. mál
[18:19]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Fyrst varðandi aðra kosti en þá sem eru í boði. Ég hef alltaf túlkað það svo að ef kjósandi mætir á kjörstað og velur ekki neinn af þeim kostum sem í boði eru sé hann einfaldlega að senda mjög skýr skilaboð um að hann sætti sig ekki við neinn kost sem er í boði og ekki þurfi að hafa sérstakan reit á atkvæðaseðlinum til að útskýra það. Það geta verið einhverjar aðrar kosningafræðilegar vangaveltur sem ég ekki er kunnugur sem gera það að verkum að einhvers staðar sé boðið upp á möguleikann „eitthvað annað“ en í mínum huga hefur það verið mjög skýrt að ef menn skila auðu eru þeir að segja: Ég sætti mig ekki við neinn af þeim kostum sem eru í boði.

Varðandi það sem hv. þingmaður var að ræða hér síðar um talningu á einum stað þá var þetta álitamál uppi í nefndinni og raunar einnig í óformlegum undirbúningshópi sem ræddi þessi mál nokkuð síðasta sumar meðan drög að frumvarpinu voru í smíðum. Vissulega voru skiptar skoðanir um þetta en menn töluðu sig niður á þá niðurstöðu í allsherjarnefnd að rétt væri að hafa þetta á einum stað. Það byggir í rauninni á þeirri forsendu að kosningin er fyrir allt landið, kosningin á að endurspegla vilja þjóðarinnar í heild. Það getur verið forvitnilegt og áhugavert fyrir stjórnmálafræðinga og stjórnmálaspekúlanta aðra að vita nánar hvernig kjósendur skiptast eftir landshlutum (Forseti hringir.) eða eftir einhverjum öðrum forsendum, en er ekki réttara að það gerist bara í skoðanakönnunum (Forseti hringir.) frekar en í talningunni sjálfri?