138. löggjafarþing — 142. fundur,  15. júní 2010.

aðgerðir í skuldamálum.

[10:07]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Í ljósi svars hæstv. forsætisráðherra vil ég vísa aftur á grein hv. þm. Helga Hjörvars þar sem hann útskýrir ágætlega hvernig Íbúðalánasjóður gæti meðal annarra tekið þátt í almennri skuldaleiðréttingu. Það hefur reyndar komið fram, m.a.s. hjá hæstv. félagsmálaráðherra sem barðist hvað harðast gegn almennri skuldaleiðréttingu í upphafi, að kostnaðurinn muni ekki lenda á skattgreiðendum eins og hæstv. forsætisráðherra heldur enn fram, nú einu og hálfu ári seinna. Þetta er í raun tapað fé svo það er eðlilegt og hagkvæmt fyrir alla að viðurkenna það og afskrifa eftir því sem getur talist innan eðlilegra marka, réttara sagt leiðrétta lánin eins og eðlilegt hlýtur að teljast.

Því spyr ég hæstv. forsætisráðherra hvort ekki sé eðlilegt að nefnd um stöðu heimilanna fái að starfa áfram að því að útfæra raunverulegar lausnir því að eins og hv. þm. Helgi Hjörvar bendir á eru þær lausnir sem hæstv. forsætisráðherra (Forseti hringir.) talar um að séu þegar komnar ekki nægar einar og sér. Eigum við ekki að halda áfram í þinginu að vinna þangað til þessar almennu aðgerðir liggja fyrir?