138. löggjafarþing — 142. fundur,  15. júní 2010.

niðurfellingar skulda.

[10:26]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég viðurkenni að ég hreifst nokkuð af líkingamáli hv. þingmanns í þessari ræðu. Það hefur ekki staðið á mér að ræða við hann eða aðra fulltrúa stjórnarandstöðunnar um flatar niðurfellingar skulda. Ég hef alltaf sagt að ef menn geta útskýrt fyrir mér leið til að ná fram flötum niðurfelllingum án þess að það hafi í för með sér kostnað fyrir almenna skattborgara er ég til umræðu um það. Það má kannski taka þá líkingu aðeins lengra sem hv. þingmaður notaði í ræðu sinni með því að segja að þegar ég kem til dyra virðist alltaf hafa verið gert hjá mér bjölluat því að þá er enginn til viðræðu, þá er þar aldrei neinn til að tala við. Þeir sem kalla eftir flötum niðurfellingum verða að svara þessari spurningu: Hvernig á að fjármagna þetta? Er það með tilflutningi fjármuna frá einum til annarra í samfélaginu, sem mér sýnist það alltaf leiða af sér? Það finnst mér erfið staða, sérstaklega ef við erum að tala um að skerða lífeyrisréttindi fólks og skerða þar með kjör lífeyrisþega sérstaklega og nota þá kjaraskerðingu til að létta byrði þeirra sem eru mjög skuldsettir. Það er mjög erfitt að svara því með réttlætisrökum að það sé rétta leiðin.

Ég hef alltaf verið tilbúinn til umræðu um þetta mál en mér finnst standa svolítið upp á þá sem eru í þessu bjölluati að koma fram með trúverðuga leið um það hvernig á að jafna þessum kostnaði niður. Hvað eru menn þá tilbúnir að skerða kjör lífeyrisþega mikið? Hvað eru menn tilbúnir að hækka skatta mikið til að borga fyrir þessar almennu niðurfellingar?