138. löggjafarþing — 142. fundur,  15. júní 2010.

samgönguáætlun fyrir árin 2009--2012.

582. mál
[16:32]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Kristján L. Möller) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil aðeins nefna nokkur atriði sem hv. þingmaður hefur gert að umtalsefni og spurt mig út í. Fyrst um framkvæmdir í höfuðborginni Reykjavík: Við verðum að hafa í huga að þessu er skipt niður í Reykjavík og Suðvesturkjördæmi, til og frá, og ég er ekki með nákvæma útlistun á því hvað er innan borgarmarkanna og hvað ekki. En af því að hv. þingmaður talar um undirgöng við Klébergsskóla þá er þeirri framkvæmd lokið, það var byrjað á henni í fyrra og hún var tekin í notkun. Þarna var eingöngu verið að gera upp skuld sem stóð út af með þessum 15 milljónum.

Hv. þingmaður talar svo um Hlíðarfót og er ég nokkuð að ruglast á nöfnum? Hlíðarfótur er spotti sem Reykjavíkurborg var að leggja niður að Háskólanum í Reykjavík og sú framkvæmd er búin. Það var framkvæmd á vegum Reykjavíkurborgar og heitir nú, að mig minnir, Nauthólsvegur. Við verðum síðan að hafa í huga í þessu samhengi, þegar við tölum um Reykjavík og Suðvesturkjördæmið, höfuðborgarsvæðið, allar þær stóru og miklu framkvæmdir sem eru hér til og frá í nágrenninu og alveg sama í hvaða átt við erum að fara. Miklar framkvæmdir eru hugsaðar á Reykjanesbrautinni eða á Hafnarfjarðarveginum réttara sagt, gatnamót við Vífilsstaðaveg. Við erum að vinna uppi á Hafravatnsvegi/Þingvallavegi. Álftanesvegur er inni, Arnarnesvegur er inni og svo eru það, eins og hv. þingmaður gat sérstaklega vel um, og ég vil þakka henni fyrir að nefna þau atriði vegna þess þau eru ekkert lítil í þessu, öryggisaðgerðir á höfuðborgarsvæðinu fyrir 400 milljónir, hjóla- og göngustígar sömuleiðis 400 milljónir, göngubrýr/undirgöng 200. Þetta eru milljarðar og síðan er milljarður í bætt umferðarflæði, almenningssamgöngur, mest innan sveitarfélagsins Reykjavíkur, og þannig má lengi telja. (Forseti hringir.) Vegna þess að hv. þingmaður byrjaði þingmennsku sína í Norðausturkjördæmi og er nú í Reykjavík þá fór hún yfir svo mikið þannig að (Forseti hringir.) ég verð að taka hinn þáttinn, virðulegi forseti, í seinna andsvari.