138. löggjafarþing — 142. fundur,  15. júní 2010.

þjóðaratkvæðagreiðslur.

112. mál
[18:45]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (Vg):

Frú forseti. Við fjöllum um lög um þjóðaratkvæðagreiðslur, eða um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna öllu heldur, því að eins og komið hefur verið inn á í umræðunni taka þessi lög ekki til þess undir hvaða kringumstæðum við viljum hafa þjóðaratkvæðagreiðslur eða hvernig hægt er að ná þeim fram.

Í þessu frumvarpi eru breytingar sem snúa að kjördæmamörkum. Ég hef haft ákveðnar efasemdir um þetta. Vissulega er bent á það í nefndarálitinu að kannski skiptir ekki öllu máli þótt niðurstöður séu ekki birtar eftir kjördæmum og að það hafi ekki áhrif á niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslunnar. Hins vegar gæti verið fróðlegt að sjá hvernig atkvæðaskipting er eftir einstökum kjördæmum. Ég nefni í því samhengi til að mynda ESB-umsóknina þar sem allar líkur eru til þess að meiri andstaða sé við hana víða á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu, í það minnsta hafa kannanir sýnt það.

Það er annað sem ég hef haft ákveðnar efasemdir um og það er þáttur sem snýr að opinni, gagnsærri og hlutlausri umræðu þegar kemur að þjóðaratkvæðagreiðslum. Það er ekki að ástæðulausu því að margir hafa af því áhyggjur að þjóðaratkvæðagreiðslur, til að mynda um Evrópusambandsumsókn, litist mjög af auglýsingum og öðru slíku og þar verði ójafnt skipt. Fjöldamörg dæmi, t.d. frá Írlandi, Tékklandi, Noregi og víðar þar sem farið hefur fram þjóðaratkvæðagreiðsla um Evrópusambandsumsókn, sýna mjög greinilega hversu ójafnt er skipt í þeim efnum. Gríðarlegir fjármunir hafa komið inn á síðustu vikum og mánuðum kosningabaráttunnar og blöð hafa fyllst af auglýsingum um ágæti Evrópusambandsins. Ég held að það sé full ástæða til þess að við skoðum sérstaklega að setja einhver mörk á þetta og takmörk á hvernig þessum málum er háttað. Þess vegna hafði ég ákveðnar efasemdir um þætti er varða Lýðræðisstofu og settir voru inn í nefndarálit fyrir Borgarahreyfinguna og sneru að þjóðaratkvæðagreiðslum þar sem Lýðræðisstofa ætti að fara með hlutlausa umfjöllun um viðkomandi málefni. Það er ekki inni í þessu frumvarpi. Ég hefði talið að það væri mjög eðlilegt að setja hana þarna inn rétt eins og getið var um í nefndaráliti um Evrópusambandsumsóknina.

Í þetta frumvarp vantar stóran hluta. Vissulega er gott og gegnt að fá þetta frumvarp inn um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna en þetta er nú samt kannski ekki það mál sem hefði legið hvað mest á að setja lög um þegar ekki liggur fyrir hvernig þjóðin sjálf eða þingið getur kallað eftir þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég hefði kallað eftir því að sú vinna hefði farið í gang á undan og þetta hefði svo komið þar á eftir. Þetta mál ber þess merki að vera eingöngu hugsað vegna Evrópusambandsumsóknarinnar og þess vegna hefði ekki legið svo mjög á því, frú forseti.

Ég ætla ekki að hafa þetta lengra að sinni en mun koma í atkvæðaskýringar við atkvæðagreiðsluna.