138. löggjafarþing — 142. fundur,  15. júní 2010.

Stjórnarráð Íslands .

375. mál
[22:04]
Horfa

Frsm. meiri hluta allshn. (Róbert Marshall) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessar spurningar. Ég verð að svara þeim þannig að ég tel mjög jákvætt að búinn sé til rammi svo unnt sé að setja starfsmönnum Stjórnarráðsins, ráðherrum, sérstakar siðareglur. Þær eru öðruvísi en þær reglur sem gilda um framgöngu ráðherra og opinberra starfsmanna í starfi, þ.e. þær eru ekki starfsreglur í hefðbundnum skilningi orðsins heldur miklu fremur viðmiðunarreglur um framgönguna. Þarna er ekki um að ræða reglur sem menn gerast brotlegir við og eiga við t.d. um lög um ráðherraábyrgð.

Sjálfur þekki ég og kannast við sem fyrrverandi blaðamaður að starfa í umhverfi þar sem siðareglur eru í bakgrunni vinnubragða sem felast kannski fyrst og fremst í því að um vandaða framgöngu eigi að vera að ræða, að menn láti ekki annarlega hagsmuni ráða för o.s.frv. Við könnumst t.d. öll við þann útbreidda misskilning í íslenskum stjórnmálum þegar kemur t.d. að því að trúnaður á milli almennings og stjórnmálamanns hefur beðið hnekki, ef til vill án þess þó að um brot í starfi sé að ræða. Eitthvað kemur upp á, einhver mistök eiga sér stað í undirstofnunum eða stofnunum sem ákveðinn stjórnmálamaður hefur yfir að segja og þá er mjög gjarnan vísað í þá reglu að hann hafi ekki brotið nein lög og sé því saklaus þar til sekt hans er sönnuð o.s.frv. Það á ekki beinlínis við heldur snýst þetta fyrst og fremst um þá staðreynd að hann nýtur ekki lengur trúnaðar og það er önnur regla sem (Forseti hringir.) tekur þar til.

Ég mun svara í næsta andsvari þeim spurningum sem hv. þingmaður beindi til mín.