138. löggjafarþing — 142. fundur,  15. júní 2010.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

255. mál
[23:21]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Við ræddum þetta mál ítarlega í viðskiptanefnd. Ég sem varaformaður nefndarinnar stend fullkomlega á bak við þá ræðu sem formaður nefndarinnar flutti áðan. Það er óþarfi fyrir mig að endurtaka það sem þar kom fram en ég vildi koma í andsvar við hv. þingmann vegna þess að þótt ég deili að einhverju leyti sumum af þeim skoðunum sem hann varpaði á loft í ræðu sinni vil ég samt sem áður gera eina athugasemd. Að óbreyttu tel ég að við séum í þó nokkuð verri málum ef við gerum ekki neitt í þeirri stöðu sem við búum við. Við höfum gjaldþrota sjóð sem fær litlar inngreiðslur og við búum í dag við 100% ríkisábyrgð á öllum innstæðum á Íslandi.

Við búum líka í dag við þá stöðu að við tryggjum innstæður sem ekki er hægt að skilgreina sem valkost fyrir almennan sparifjáreiganda. Við styðjum fjárfestingarkostinn. Með nýju frumvarpi verður mikil breyting á hækkun inngreiðslna þannig að sjóðurinn mun safna fjármunum miklu hraðar. Inngreiðslur verða miklu tíðari þannig að sjóðurinn verður miklu betur í stakk búinn til að bregðast við breytingum, þ.e. sjóðsmyndunin verður óvenjuhröð.

Óbreytt staða er sýnu verri en sú að takast á við vandamálið, reyna að leysa það með einhverjum hætti og þar af leiðandi styrkja sjóðinn, skilja gjaldþrota sjóðinn eftir með fortíðarvandamál, sem við þekkjum öll og óþarfi er að ræða hér, en draga línu í sandinn, horfa fram á við og byrja að safna í nýjan sjóð til að við getum horfið frá því að vera með 100% ábyrgð á öllum innstæðum á Íslandi.