138. löggjafarþing — 142. fundur,  16. júní 2010.

afgerandi lagaleg sérstaða Íslands varðandi tjáningar- og upplýsingafrelsi.

383. mál
[03:31]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég vildi lýsa því hér að við fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í allsherjarnefnd studdum afgreiðslu þessa máls og styðjum framgang þess enda er margt í því mjög áhugavert og mikilvægt að það verði skoðað. Við teljum að tillögugreinin eins og hún hljóðar sé afar góð og leggi verkefni í hendur ríkisstjórninni sem er gott og áríðandi að verði unnið. Við skrifum undir nefndarálit með fyrirvara og tökum kannski ekki undir allt sem þar stendur eða í greinargerð með frumvarpinu. Hins vegar erum við mjög sátt við meginmarkmið frumvarpsins og teljum að það sé afar áhugavert fyrir Ísland að fram fari sú athugun sem þingsályktunartillagan gerir ráð fyrir með það að markmiði að bæta stöðu tjáningarfrelsis í íslenskri löggjöf og leita (Forseti hringir.) fyrirmynda í því sambandi í nágrannaríkjunum.