138. löggjafarþing — 144. fundur,  16. júní 2010.

skipun nefndar sem kanni forsendur verðtryggingar á Íslandi.

676. mál
[16:46]
Horfa

Frsm. viðskn. (Lilja Mósesdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég sem formaður viðskiptanefndar mæli fyrir tillögu til þingsályktunar frá hv. viðskiptanefnd um skipun nefndar sem kanni forsendur verðtryggingar á Íslandi.

Samkvæmt tillögunni er verkefni nefndarinnar sem Alþingi felur hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra að skipa fjórþætt. Í fyrsta lagi að kanna forsendur verðtryggingar á Íslandi, í öðru lagi að meta kosti og galla þess að dregið verði úr vægi verðtryggingar í íslensku fjármálakerfi, í þriðja lagi að skoðað verði hvaða leiðir eru hagfelldastar í því skyni og í fjórða lagi að leggja fram tillögur um hvernig draga megi úr umfangi verðtryggingar án þess að fjármálastöðugleika sé ógnað.

Í nefndinni munu eiga sæti fulltrúar allra flokka á þingi auk eins fulltrúa efnahags- og viðskiptaráðuneytis og eins fulltrúa fjármálaráðuneytis. Hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra skipar formann nefndarinnar og nefndin á að skila honum áliti sínu og tillögum fyrir lok árs 2010.

Frú forseti. Ég vil að lokum geta þess að einn helsti hvatamaður að þessari þingsályktunartillögu er hv. þm. Eygló Harðardóttir, fulltrúi Framsóknar í viðskiptanefnd. Hún hefur barist fyrir framgangi þessarar tillögu frá því í desember í fyrra og á hún þakkir skilið fyrir þrautseigjuna.