138. löggjafarþing — 147. fundur,  24. júní 2010.

tekjuskattur.

659. mál
[16:16]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Aðeins örfá orð um þetta frumvarp sem ég er á með fyrirvara. Skýringuna á fyrirvaranum er að finna í nefndaráliti þar sem segir, með leyfi forseta:

„Skattaeftirgjöf samkvæmt frumvarpinu mun fyrst og fremst nýtast þeim sem fengið hafa úrræði í boði kröfuhafa. Fram komu efasemdir um réttmæti þess að veita slíka skattaeftirgjöf í þeim tilvikum þegar úrræði kröfuhafa við niðurfellingu skulda tækju ekki tillit til eignastöðu og tekna eins og gerð er krafa um í almennum úrræðum stjórnvalda.“

Staðreyndin er sú að við erum að afgreiða frá Alþingi spyrðu lagafrumvarpa þar sem tekið er á vanda skuldugra heimila, skuldugra einstaklinga. Meginreglan er sú að þegar skuldir eru afskrifaðar, færðar niður, eru þær ekki skattlagðar. Það er meginreglan þegar fólk fer í gegnum þessi opinberu greiðsluúrræði. Það mundi gilda um alla þá sem hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson og hv. þm. Pétur H. Blöndal vísuðu til, ef þeir gengju í gegnum slíka greiðsluaðlögun yrði niðurfellingin ekki skuldsett. Þó var hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson með undantekningar á þeirri reglu og vísaði í kaup á stofnbréfum sem er alveg rétt. Þetta er flókin mynd, en hættan er sú að við séum að búa til kerfi sem er, hvað eigum við að segja, tvíþrepa, eitt fyrir þá sem ganga í gegnum hin opinberu úrræði og annað fyrir hina sem fá lausn sinna mála í boði kröfuhafa, þ.e. í boði bankanna.

Sannast sagna hef ég hugsað talsvert um þá tillögu sem hv. þm. Pétur H. Blöndal setti fram í nefndinni um að þeirri meginreglu að skattleggja beri niðurfellingu á skuldum við og horfa þess í stað þannig á málin að það skuli ekki gert nema um gjafaúrræði sé að ræða. Þá væri búið að fara í gegnum eignastöðuna, ef engar eignir eru fyrir hendi væri það sjálfgert að skuldirnar féllu niður.

Hér hafa verið tekin dæmi sem eru mjög lýsandi, annars vegar um eign sem er keypt fyrir lán og eignin gufar síðar upp. Síðan getum við ímyndað okkur annað tilvik þar sem einstaklingur fær að láni, við skulum segja 100 millj. kr., og kaupir fyrir það stórt einbýlishús, litla höll, og lánið síðan skrifað niður. Ef farið væri að ýtrustu kröfum fjármálafyrirtækja um fullkomna niðurfellingu ætti það við í þessu tilviki og einstaklingurinn sæti uppi með þennan gjafagerning sem væri þá ekki skuldsettur. Þá erum við komin með þjóðfélag sem býr til eitt úrræði fyrir hina efnamiklu og annað fyrir hina efnaminni, eða öllu heldur þá sem væru í náðinni og hina sem væru utan náðarinnar.

Að öðru leyti styð ég þá málamiðlun sem hér liggur á borðinu og ég horfi líka til þeirra úrræða sem koma fram í þeim lagafrumvörpum sem verða borin undir atkvæði á eftir. Ég skoða málin þannig heildstætt og í því ljósi hef ég ákveðið að styðja þetta frumvarp.