138. löggjafarþing — 151. fundur,  6. sept. 2010.

viðbrögð ríkisstjórnarinnar við væntanlegum dómi Hæstaréttar um gengistryggð lán.

[10:41]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Frú forseti. Ég verð að viðurkenna að ég er hálfáttavilltur yfir því hvort hæstv. ráðherra svaraði þessari spurningu í einhverju, en mig langar að inna hann aftur eftir sama og þá í rauninni útfæra aðeins spurninguna. Ef ég skil það rétt að ráðuneytið hafi þegar undirbúið viðbrögð við dómnum, þá væntanlega að þessi dómur geti fallið á hvorn veginn sem er, telur ráðherra þá ekki við hæfi að kynna þau viðbrögð fyrir viðkomandi nefndum Alþingis áður en þau verða kláruð af framkvæmdarvaldinu þannig að þingmenn séu upplýstir um hvað á að gera í þessu máli?

Svo er vitanlega ágætt að spyrja hæstv. ráðherra líka af þessu tilefni hvort þetta séu almennar aðgerðir sem verður gripið til í framhaldi af dómnum og hvað honum finnist um slíkar aðgerðir til að hjálpa skuldurum. Það er ágætt að það komi fram um leið en mér sýnist að ríkisstjórnin sé að undirbúa viðbrögð við þessum dómi og það hlýtur því að vera mjög mikilvægt og spennandi að sjá hver þau viðbrögð eru (Forseti hringir.) og með hverjum ríkisstjórnin ætlar að standa.