138. löggjafarþing — 151. fundur,  6. sept. 2010.

Stjórnarráð Íslands.

658. mál
[12:17]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þegar við ræddum hér á vordögum um breytingar á Stjórnarráðinu lögðu tveir hv. þingmenn og einn hæstv. ráðherra fram bókun sem var gerð á þingflokksfundi Vinstri grænna. Hv. þm. Atli Gíslason las bókunina upp í þingsal við þá umræðu. Með leyfi forseta ætla ég að fá að vitna hér í einn hluta hennar, þ.e. að samning frumvarpsins og framlagning sé í andstöðu við reglur samkvæmt handbók forsætisráðuneytisins, dómsmálaráðuneytisins og skrifstofu Alþingis um undirbúning og frágang lagafrumvarpa frá því í nóvember 2007.

Mig langar að staldra aðeins við þetta, virðulegi forseti, vegna þess að við höfum aldeilis orðið áskynja um það hér á síðustu mánuðum og árum hvað vönduð vinnubrögð hefðu átt betur við á hinu háa Alþingi. Því langar mig að spyrja hv. þm. Róbert Marshall, sem er formaður allsherjarnefndar: Var þetta rætt í meðförum nefndarinnar á málinu í sumar, þ.e. sú fullyrðing að þetta frumvarp væri lagt fram með þeim hætti að það stæðist ekki þær grundvallarreglur sem á að fara eftir á Alþingi þegar lagafrumvörp eru lögð fram?

Ég vek athygli á því að hv. þm. Atli Gíslason er löglærður maður og hefur spáð í þessa hluti. Það kom fram í máli hans þegar hann lagði fram þessa bókun. Einn hæstv. ráðherra í ríkisstjórn Íslands kemur líka með þessa fullyrðingu og bókun hér inn. Þess vegna langar mig að spyrja hv. þingmann, formann allsherjarnefndar: Var rætt sérstaklega í nefndinni hvort það lagafrumvarp sem við erum að ræða hér nú og þær breytingar stæðust þau grundvallaratriði sem á að fylgja þegar lögð eru fram lagafrumvörp og afgreidd á Alþingi?