138. löggjafarþing — 151. fundur,  6. sept. 2010.

Stjórnarráð Íslands.

658. mál
[18:38]
Horfa

Óli Björn Kárason (S):

Frú forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á lögum um Stjórnarráð Íslands sem hæstv. forsætisráðherra lagði fram. Þetta frumvarp er eitt af loforðunum sem forsætisráðherra hefur gefið um að fækka ráðuneytum. En í meðförum meiri hluta allsherjarnefndar er búið að útvatna frumvarpið allhressilega. Það hefur þó gerst í millitíðinni að ráðherrum hefur fækkað um tvo og eru núna tíu. Það vekur sérstaka athygli mína að enginn af hæstv. ráðherrum hefur áhuga á því, nennu eða jafnvel getu, ég veit ekki hvort það er, að taka þátt í þeirri umræðu sem hér er. Þeir eru einhvers staðar annars staðar, sumir jafnvel í öðrum löndum. Áhuginn á að koma frumvarpinu hér í gegn eins og það lítur út virðist því ekki mjög mikill enda vandræðagangurinn búinn að vera þannig að það væri skynsamlegt fyrir ríkisstjórn hæstv. forsætisráðherra að draga það til baka.

Ég vil vekja athygli á því sem segir í nefndaráliti meiri hluta allsherjarnefndar þar sem lögð er áhersla á að áfram verði unnið að undirbúningi og samráði vegna atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins og umhverfis- og auðlindaráðuneytis, en tillaga um þessi ráðuneyti er að vísu felld úr frumvarpinu að tillögu meiri hlutans. Síðan telur meiri hlutinn að í aðdraganda sameiningar ráðuneyta í tilviki sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis og iðnaðarráðuneytis geti verið heppilegt verklag að sami ráðherra gegni þeim ráðuneytum sem til stendur að sameina mánuðina áður en sameiningin á sér stað.

Ef ég skil rétt yfirlýsingar hæstv. forsætisráðherra hygg ég að hann láti sig dreyma um að þær stjórnkerfisbreytingar eða breytingar á Stjórnarráðinu, sameining atvinnuvegaráðuneytanna í eitt og uppstokkun í umhverfisráðuneytinu, þar sem nýting auðlinda fari undir umhverfisráðuneytið, nái fram að ganga um áramótin og þá verði enn frekar fækkað í ríkisstjórn.

Minn kæri vinur hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra er einn af þeim sem greinilega er á skilorði hjá hæstv. forsætisráðherra. Hæstv. utanríkisráðherra hefur líka sagst vera á skilorði. Skilorð er mjög sérstakt orð vegna þess að það er yfirleitt notað um sakamenn og ég veit ekki til þess að þessir menn, hvorki hæstv. ráðherrar Össur Skarphéðinsson né Jón Bjarnason, hafi neitt til saka unnið annað en kannski það að hafa ekki réttar skoðanir á öllum málum. En það getur varla verið glæpur.

Í aðdraganda þessa frumvarps er alveg ljóst að veruleg vandræði hafa verið á stjórnarheimilinu og vitna ég til þess að á flokksráðsfundi Samfylkingarinnar fór hæstv. forsætisráðherra nokkrum orðum um frumvarpið, sem er greinilega hennar hjartans mál. Það olli hins vegar taugatitringi og jafnvel sprengingu innan Vinstri grænna og hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Jón Bjarnason, lét hafa eftir sér í fjölmiðlum að það væri vanhugsað að veikja stjórnsýslulega stöðu þess ráðuneytis sem hann stýrir nú þegar viðræður við Evrópusambandið nálgast enda muni mikið reyna á ráðuneytið í aðildarviðræðunum.

Undir þetta tók hv. þm. Ásmundur Einar Daðason og sagði orðrétt í viðtali við Morgunblaðið , með leyfi forseta:

„Það kemur ekki til greina af minni hálfu að veikja stöðu grunnatvinnuveganna í ESB-ferlinu jafnvel þó að einhverjir kunni að hafa áhuga á því.“

Ég vík að þessu vegna þess að það er alveg ljóst að meiri hluti allsherjarnefndar — en undir það nefndarálit skrifa núverandi hæstv. dóms- og samgönguráðherra, Ögmundur Jónasson, og hv. þm. Árni Þór Sigurðsson, samflokksmenn hv. þm. Ásmundar Einars Daðasonar og hæstv. ráðherra, Jóns Bjarnasonar. Þeir eru búnir að samþykkja það, þessir ágætu hv. þingmenn, að sameina ráðuneyti atvinnuveganna í eitt ráðuneyti. Það hefði því verið gott að fá að heyra í hv. þm. Ásmundi Einari Daðasyni og ekki verra ef hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefði verið hér í salnum og tekið þátt í þessari umræðu. En kannski er það við hæfi að hann sé fjarverandi.

Þetta er svo mikið vandræðamál að þegar hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra var spurður, af fréttamanni Ríkisútvarpsins 9. maí, um þessar fyrirhuguðu breytingar og fækkun ráðuneyta, sneri hann öllu á hvolf og svaraði, með leyfi forseta:

„Sko, við ræðum allt, en ég er nú bara að koma núna austan úr Eyjafjöllum. Við vorum á fundum með bændum á gossvæðinu og það er vissulega alvarleg staða þar á nokkrum bæjum þó að fólkið sýni mikinn dugnað.“

Þá spyr fréttamaðurinn áfram um þessar breytingar, fækkun ráðuneyta, og hæstv. ráðherra segir:

„Og það rigndi sandi þarna þannig að það var mjög nauðsynlegt að bakka upp þetta og vera þarna á þessum stað og hitta fólkið og fara í gegnum málin.“

Það kemur því ekki á óvart að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra vilji forðast það að ræða hér við þingheim það sem hann forðaðist að ræða við fréttamann Ríkisútvarpsins í maí. Hann veit sem er að búið er að semja um það að búa skal til eitt atvinnuvegaráðuneyti og að hann fari úr ríkisstjórninni, og undir það hefur hæstv. núverandi dóms- og samgönguráðherra skrifað í meirihlutaáliti allsherjarnefndar.

Ég átti áðan stutt samtal við hv. þm. Þráin Bertelsson og sagði þá að ég saknaði þess að hæstv. forsætisráðherra hefði ekki verið í salnum þegar hann flutti ádrepu sem var mögnuð. Ég hygg, frú forseti, að rétt væri að vekja sérstaka athygli hæstv. forsætisráðherra og í rauninni ríkisstjórnarinnar allrar á ræðu hv. þm. Þráins Bertelssonar og hugsanlegt að prenta eigi hana sérstaklega út fyrir ríkisstjórnina í heild sinni.

Ég hef líka ýmislegt við þetta frumvarp efnislega að athuga. Ég er sammála hv. þm. Þráni Bertelssyni að lög eru ekki til þess að leika sér að og menn skulu ekki setja lög nema efnislegar ástæður liggi þar að baki og nauðsyn krefji. Það virðist vera háttur manna á þessari virðulegu samkomu að setja fremur fleiri lög en færri enda mæla þingmenn margir hverjir dugnað þingsins út frá fjölda lagafrumvarpa og þingsályktunartillagna sem afgreiddar eru á hverju þingi í stað annarra mælikvarða, svo sem eins og hversu mörgum lögum menn hafa komið fyrir kattarnef eða grisjað.

Ég er sannfærður um að þetta frumvarp er óþarft og menn eigi að leggja það til hliðar. Ég hef líka verulegar áhyggjur af því að með fækkun ráðuneyta — og ég tala nú ekki um ef menn stofna hér eitt atvinnuvegaráðuneyti sem nær yfir alla íslenska atvinnuvegi, allt frá landbúnaði til sjávarútvegs, frá iðnaði til verslunar — muni okkur ekki farnast mjög vel í atvinnuuppbyggingu á komandi árum. Ég hygg að verið sé að færa svo mikil völd í hendur á einum ráðherra að sérstaklega sterkt verði að vara við slíkri valdasamþjöppun. Þetta á ekki síst við þegar við horfum upp á veikleika löggjafans, Alþingis, gagnvart framkvæmdarvaldinu því að það er auðvitað svo, því miður, að að stórum hluta er Alþingi á stundum hrein afgreiðslustofnun fyrir framkvæmdarvaldið. Ég held að menn eigi að fara mjög varlega í að taka saman í eitt ráðuneyti alla atvinnuvegi landsins, a.m.k. á meðan ekki er búið að tryggja að fullu sjálfstæði löggjafans gagnvart framkvæmdarvaldinu og búið er að tryggja að Alþingi breyti vinnubrögðum sínum við lagasetningu, taki ekki bara frumkvæði frá framkvæmdarvaldinu heldur verði markvissari í lagasetningu, setji skýrari lög og afhendi ekki framkvæmd laganna til ráðherra og jafnvel undirstofnana með heimild til reglugerðasetninga eins og háttur er. Ég óttast, ef við siglum inn í það fyrirkomulag að allir atvinnuvegir landsins verði undir einum ráðherra og Alþingi taki ekki til í sínum ranni, að þá verði ægivaldið svo mikið að betur sé heima setið en af stað farið.

Hið sama á við um hið stóra velferðarráðuneyti. Það vekur auðvitað athygli að menn skuli yfir höfuð telja að slíkt ráðuneyti muni leiða til einhvers sparnaðar á sviði heilbrigðis- og velferðarmála. Hér eru um 50% eða svo af útgjöldum ríkisins og ég dreg mjög í efa, og skiptir engu máli hversu snjall og útsjónarsamur einstaklingur velst í það ráðuneyti, að einn maður muni nokkurn tíma geta haft yfirsýn yfir jafnflókin mál og velferðarmálin eru hér á landi. Þá held ég að við munum komast að þeirri niðurstöðu að með sameiningu félags-, trygginga- og heilbrigðisráðuneytisins höfum við verið að spara aurinn en kasta krónunni. Þetta er miður.

Frú forseti. Ég legg til, og það væri skynsamlegast, að þetta frumvarp verði dregið til baka, unnið betur, og um leið færi fram vinna á vegum forsætisnefndar Alþingis til að samræma hugmyndir manna um fækkun ráðuneyta og auka sjálfstæði löggjafans gagnvart framkvæmdarvaldinu og virkni Alþingis í lagasetningu.