138. löggjafarþing — 152. fundur,  7. sept. 2010.

skipulagslög.

425. mál
[17:26]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Þá fer það ekkert á milli mála að ég og hv. þingmaður erum sammála um það að í aðalatriðum renni fé frá þeim sveitarfélögum þar sem framkvæmdir eru miklar í sjóðinn og það fé sé m.a. notað til að styrkja þau sveitarfélög þar sem framkvæmdir eru tiltölulega litlar. Í heildina virkar þessi sjóður því eins og enn einn jöfnunarsjóðurinn þar sem fé fer af höfuðborgarsvæðinu og út á land, og þó að ég kjósi kannski að viðhafa engin ummæli um það að sinni er vani landsbyggðarþingmanna að vera ákaflega ánægðir með slíka skipan.

Það kann svo að vera rétt hjá hv. þm. Sigurði Inga Jóhannssyni að til eru þau dæmi, það verða þau tilvik, að landsbyggðarsveitarfélög kunna að fara halloka í þessu skrýtna skipulagi og þá einkum ef þau ráðast skyndilega í miklar framkvæmdir en hafa kosið að standa annars staðar í þessari flokkun Skipulagssjóðs. Þá er um það að segja að það verður ekki bæði haldið og sleppt í þessu efni. Það þýðir sem sagt ekki að vera þeim megin sem það hentar betur hverju sinni, menn verða að velja sér þarna stað, og það hefur held ég komið fyrir í þessari sögu að sveitarfélög hafa farið úr einni deildinni í aðra.

Ég vek enn athygli á því og beini því enn til hæstv. umhverfisráðherra að endurskoða þessa skipan, þetta er ein grein í lögunum og þarf ekki að kollvarpa þeim þó að hún sé skoðuð á ný, og einnig að fara í hin praktísku mál sjóðsins, peningamál hans og vald þeirra sem stjórna því fjárstreymi. Meðal annars var vakin athygli á því í nefndarstarfinu að úr sjóðnum færi lítið sem ekkert fé til skipulagsrannsókna sem þó væri mikil þörf á.