138. löggjafarþing — 153. fundur,  8. sept. 2010.

iðnaðarmálagjald.

661. mál
[11:26]
Horfa

Frsm. meiri hluta iðnn. (Skúli Helgason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 134/1993, um iðnaðarmálagjald, með síðari breytingum.

Iðnaðarnefnd hefur fjallað um málið og fengið til sín lögspekinga, málsaðila og fulltrúa stjórnvalda til að ræða það mál sem er kveikjan að þessu frumvarpi, þ.e. nýfallinn dóm Mannréttindadómstóls Evrópu um framkvæmd laga um iðnaðarmálagjald. Umræddur dómur féll þann 27. apríl sl. og var meginniðurstaða hans sú að framkvæmd laganna um iðnaðarmálagjald væri í andstöðu við 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem kveður á um funda- og félagafrelsi.

Í 1. mgr. greinarinnar er kveðið á um rétt manna til funda- og félagafrelsis. Í 2. mgr. er kveðið á um hvaða skilyrði þurfi að uppfylla til að takmarkanir á þessum réttindum geti talist lögmætar. Félagafrelsið er einnig verndað í 5. gr. félagsmálasáttmála Evrópu og í samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, nr. 87/1948, en íslenska ríkið hefur fullgilt alla þessa sáttmála.

Í stjórnarskrá íslenska lýðveldisins er sömuleiðis ákvæði um félagafrelsi, í 74. gr., þar sem kveðið er á um að engan megi skylda til aðildar að félagi, með þeim takmörkunum þó að með lögum megi kveða á um slíka skyldu ef það er nauðsynlegt til að félag geti sinnt lögmætu hlutverki vegna almannahagsmuna eða réttinda annarra.

Iðnaðarnefnd kynnti sér ítarlega dóm Mannréttindadómstóls Evrópu og þá sérstaklega hvort leiða mætti af niðurstöðu dómsins að gjaldtakan sem slík væri óheimil eða hvort það væri eingöngu ráðstöfun gjaldsins til Samtaka iðnaðarins sem stangaðist á við mannréttindasáttmálann og félagafrelsisákvæði hans. Nefndin ræddi hvort réttlæta mætti takmörkun á félagafrelsi með vísan til 2. mgr. 11. gr. sáttmálans sem kveður á um að slík takmörkun þurfi að hafa lagaheimild, stefna að réttmætu markmiði og teljast nauðsynleg í lýðræðisþjóðfélagi. Óumdeilt er að skyldan til greiðslu iðnaðarmálagjalds átti sér skýran lagagrunn, samanber 1.–3. gr. laganna. Dómstóllinn féllst einnig á það sjónarmið að takmörkunin stefndi að réttmætu markmiði, þ.e. að vinna að eflingu iðnaðar og iðnþróunar í landinu. Þar með væri stefnt að því að vernda réttindi og frelsi annarra samkvæmt 2. mgr. 11. gr. sáttmálans.

Hvað varðar þriðja skilyrðið, um nauðsyn í lýðræðisþjóðfélagi, tók dómstóllinn undir ábendingu íslenskra stjórnvalda þess efnis að Alþingi hefði talið að þeim tilgangi yrði best náð með því að fela það hlutverk Samtökum iðnaðarins undir opinberu eftirliti. Meiri hluti nefndarinnar telur í ljósi þessa að álagning iðnaðarmálagjalds á iðnað í landinu byggi á málefnalegum sjónarmiðum og stefni að réttmætu markmiði. Fleiri atriði má nefna sem styðja þá niðurstöðu. Dómstóllinn fellst því hvorki á þá kröfu stefnenda að gjaldtakan feli í sér mismunun né taldi hann ástæðu til að taka til meðferðar þá kröfu að um ólögmæta skattlagningu væri að ræða. Það er því niðurstaða meiri hluta nefndarinnar að ekki verði ráðið af dómi Mannréttindadómstólsins að gjaldtakan sem slík sé ólögmæt. Þar af leiðir sú niðurstaða meiri hlutans að lög um endurgreiðslu oftekinna gjalda eigi ekki við í þessu tilviki.

Virðulegi forseti. Þó ekki megi ráða af dómi Mannréttindadómstóls Evrópu að álagning iðnaðarmálagjalds sé ólögmæt gerir dómstóllinn alvarlegar athugasemdir við framkvæmd laganna um iðnaðarmálagjald, nánar tiltekið hvernig gjaldinu hefur verið varið en það hefur runnið að langstærstum hluta eða 99,5% til Samtaka iðnaðarins. Dómstóllinn gagnrýnir í fyrsta lagi skilgreiningu laganna á því hvernig iðnaðarmálagjaldinu skuli varið, þ.e. að ekki sé nægilega skýrt tilgreint til hvaða verkefna það skuli renna. Í öðru lagi átelur dómstóllinn að gjaldið sé ekki nægilega skýrt aðgreint frá fjárreiðum Samtaka iðnaðarins. Í þriðja lagi er það niðurstaða dómstólsins að opinbert eftirlit með ráðstöfun gjaldsins hafi ekki verið nægilega skýrt eða skilvirkt og engar skorður settar við því hvernig samtökin nýti það. Það er á grundvelli þessara þriggja atriða sem dómstóllinn kemst að þeirri niðurstöðu að brotið hafi verið gegn 11. gr. mannréttindasáttmálans um félagafrelsi.

Meiri hlutinn tekur undir með dómstólnum um að þegar um er að ræða lagaákvæði sem á einhvern hátt takmarkar mannréttindi þurfi þær lagaheimildir að vera skýrar og ótvíræðar. Sé ekki svo ber að túlka þau einstaklingi í hag því að lögin eru sett til verndar einstaklingunum en ekki stjórnvöldum. Meiri hlutinn tekur því undir það sjónarmið dómstólsins að lögin um iðnaðarmálagjald hafi ekki verið nægilega skýr hvað varðar ráðstöfun gjaldsins til Samtaka iðnaðarins og grundvöllur þeirrar ráðstöfunar því ótraustur. Það er niðurstaða meiri hlutans að þó að gjaldtakan sem slík sé ekki óheimil út frá niðurstöðum dómstólsins sé þörf á breytingum varðandi ráðstöfun gjaldsins og eftirlit með því.

Virðulegi forseti. Víkjum þá að frumvarpinu sjálfu og þeim breytingum sem meiri hluti iðnaðarnefndar leggur til. Í fyrsta lagi ber þess að geta að fyrir liggur skýr vilji af hálfu Samtaka iðnaðarins þess efnis að gjaldtökunni skuli hætt þó samtökin mælist reyndar til þess í umsögn sinni um frumvarpið að tekjur af gjaldinu á yfirstandandi ári renni áfram til samtakanna til að mæta þeim skuldbindingum sem þau höfðu gert við nokkrar menntastofnanir um fjárstuðning til tiltekinna verkefna þeirra. Meiri hluti nefndarinnar telur hins vegar að ekki séu fullnægjandi viðbrögð við niðurstöðum dómstólsins að láta tekjur af iðnaðarmálagjaldi á þessu ári renna áfram til Samtaka iðnaðarins og laga eingöngu framkvæmdina eftir þeim ábendingum sem fram koma í niðurstöðum dómsins.

Meiri hluti nefndarinnar telur afar skýrt í niðurstöðu dómsins að sú ráðstöfun laganna að láta gjaldið renna að langstærstum hluta til tiltekinna hagsmunasamtaka samræmist ekki félagafrelsisákvæði mannréttindasáttmálans, jafnvel þó að fallist sé á sjónarmið stjórnvalda um lögmæti gjaldtökunnar. Hún beinist að lögmætu markmiði og uppfylli skilyrði um nauðsyn.

Virðulegi forseti. Mikilvægt er að fram komi að nefndin skoðaði sérstaklega hvort rökrétt viðbragð við niðurstöðu dómsins væri að hætta bæri gjaldtökunni tafarlaust og endurgreiða afturvirkt það gjald sem einstaklingur hefur þegar greitt á yfirstandandi ári. Nefndin leitaði til ýmissa lögspekinga í þessu efni og var það niðurstaða þeirra allra að með dómnum væri alls ekki kveðið upp úr með að gjaldtakan sem slík væri óheimil heldur eingöngu ráðstöfun gjaldsins til Samtaka iðnaðarins. Það varð því niðurstaða meiri hluta nefndarinnar að ekki væri lagagrundvöllur fyrir þeirri leið að grípa inn í þá innheimtu iðnaðarmálagjalds sem nú stendur yfir. Rétt er að árétta að innheimta gjaldsins er hafin og reyndar lokið hvað varðar einstaklinga, álagningu er lokið á ríflega 3.000 einstaklinga á yfirstandandi ári en álagning lögaðila stendur fyrir dyrum í október.

Það vegur einnig þungt í niðurstöðu meiri hluta nefndarinnar hvað varðar þetta atriði að afturvirk niðurfelling gjaldsins á yfirstandandi ári mundi skapa réttaróvissu um lögmæti gjaldtöku fyrri ára. Hins vegar liggur það fyrir, eins og fram kom áðan í máli mínu, að Samtök iðnaðarins hafa sjálf lagt til við stjórnvöld að gjaldtökunni lyki frá og með næstu áramótum. Þar með er ljóst að forsendur hafa skapast fyrir grundvallarendurskoðun á gjaldtökunni. Meiri hluta nefndarinnar telur það rökrétt framhald þeirrar stöðu að fella lögin úr gildi frá og með næstu áramótum þegar álagningu yfirstandandi árs er lokið.

Mikilvægt er að hafa í huga, og ég árétta að með því gengur löggjafarvaldið lengra en dómurinn sjálfur kveður á um því að hann kveður eingöngu á um ólögmæti ráðstöfunargjaldsins en ekki gjaldtökunnar sjálfrar, að meiri hlutinn telur rétt að kveða skýrar á um en gert er í frumvarpinu að lögin um iðnaðarmálagjald falli niður frá og með 1. janúar 2011 þar sem ljóst sé að gjaldið verði ekki lagt á frá og með þeim tíma, nema hvað varðar endurákvörðun vegna eldri gjaldára. Lögin skulu þó halda gildi sínu vegna álagningar yfirstandandi árs á einstaklinga og lögaðila vegna rekstrarársins 2009 og endurákvörðunar vegna eldri gjaldára.

Meiri hlutinn telur rétt og fullnægjandi viðbrögð við dómi Mannréttindadómstólsins að afnema lögin frá og með næstu áramótum og breyta í grundvallaratriðum ráðstöfun gjaldsins á yfirstandandi ári með þeim hætti að þau renni ekki til Samtaka iðnaðarins heldur í ríkissjóð. Meiri hlutinn áréttar enn fremur að tekjur af iðnaðarmálagjaldi sem lagt var á vegna fyrri rekstrarára, þ.e. 2008 og fyrri ára, skuli einnig renna í ríkissjóð og ráðstafa með sama hætti.

Meiri hluti iðnaðarnefndar telur rétt að kveða skýrt á um ráðstöfun iðnaðarmálagjaldsins á yfirstandandi ári og leggur fram tillögur þess efnis til frekari meðferðar og afgreiðslu í fjárlaganefnd. Á þessari stundu er ekki ljóst hve miklar tekjur munu skapast af álagningu iðnaðarmálagjalds á þessu ári en áætlað hefur verið að þær geti numið um 300 millj. kr. Lagt er til að 161,5 millj. kr. verði varið til mennta- og nýsköpunarverkefna tiltekinna menntastofnana sem Samtök iðnaðarins höfðu þegar skuldbundið sig til að styrkja með fjárframlögum. Þar er um að ræða verkefni á vegum Tækniskólans, Háskóla Íslands, Háskólans í Reykjavík, Iðnmenntar, Viðskiptasmiðju Klaks og Hátækni- og sprotavettvangs. Meiri hluti nefndarinnar leggur til að þær tekjur sem eftir standa renni annars vegar í Tækniþróunarsjóð til eflingar nýsköpun í landinu og hins vegar í Starfsmenntasjóð til að fjármagna verkefni á sviði starfsþjálfunar í atvinnulífinu. Rétt er að árétta að það er að sjálfsögðu hlutverk fjárlaganefndar Alþingis að taka ákvörðun um ráðstöfun tekna af iðnaðarmálagjaldi en tillögur iðnaðarnefndar eru hér lagðar fram til frekari skoðunar í fjárlaganefnd.

Virðulegi forseti. Dómur Mannréttindadómstóls Evrópu um iðnaðarmálagjaldið vekur upp spurningar um aðra gjaldtöku í þágu hagsmunasamtaka sem byggð er á lögum. Þegar árið 2002 komst umboðsmaður Alþingis að því í áliti að verulegur vafi léki á því hvort tilhögun laga um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins frá 1986, sem tryggði Landssambandi smábátaeigenda fjármagn, uppfyllti kröfur 74. gr. stjórnarskrárinnar um félagafrelsi. Í kjölfarið skipaði forsætisráðherra starfshóp til að fjalla um aðra hliðstæða gjaldtöku. Sá starfshópur skilaði af sér niðurstöðum í árslok 2006. Talið var að endurskoða þyrfti gjaldtöku almennt í þágu stéttarfélaga sjómanna og LÍÚ, samkvæmt lögum nr. 24/1986, en ekki einungis varðandi Landssamband smábátaeigenda. Einnig þyrfti að endurskoða lög um búnaðargjald sem tryggja Bændasamtökum Íslands, búnaðarsamböndum og búgreinasamböndum fjármagn. Vafi léki á hvort sú gjaldtaka stæðist gagnvart stjórnarskránni.

Dómur Mannréttindadómstóls Evrópu gerir það að verkum að mjög brýnt er að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti fari vel yfir grundvöll þeirrar gjaldtöku sem undir ráðuneytið heyrir. Sú vinna er hafin í ráðuneytinu samkvæmt upplýsingum sem komu fram á fundi iðnaðarnefndar. Komu að meginstefnu tvær leiðir til greina, samkvæmt fyrrgreindu áliti starfshópsins: Að afnema þessi gjöld eða kveða í lögum á um þau verkefni í þágu almannahagsmuna sem viðkomandi félög sinna og að auki hvernig haga skuli opinberu eftirliti með hvernig fjármunum þessum sé varið.

Virðulegi forseti. Málið snýst um að afnema lög um gjaldtöku á grundvelli dóms Mannréttindadómstóls Evrópu þess efnis að framkvæmd laga hafi ekki verið ásættanleg. Mannréttindi voru brotin á þeim forsendum að iðnaðarmálagjaldi væri ráðstafað til ákveðinna hagsmunasamtaka. Var niðurstaða dómsins sú að verið væri að brjóta á rétti borganna til að standa utan félaga því að einstaklingar væru látnir taka þátt í fjármögnun samtaka sem þeir hefðu ekki áhuga á að styðja eða styrkja fjárhagslega. Það er sjaldgæft, of sjaldgæft vil ég segja, að gjaldtaka á vegum ríkisins sé tekin til endurmats og afnumin. Því fagna ég tækifærinu sem við höfum til að stíga skref í þeim efnum. Upphæðin sem um ræðir er kannski ekki veruleg, að meðaltali rúmar 4.000 kr. á hvern einstakling og 76.500 kr. á hvern lögaðila, en engu að síður eigum við að fagna því tækifæri sem við höfum til að marka nýja braut. Ég tel Alþingi bregðist hratt og vel við niðurstöðu dómsins með því að leggja til, u.þ.b. 4 mánuðum eftir að dómur féll, að lög um iðnaðarmálagjald verði afnumin frá og með næstu áramótum og ljúka þar með þessari gjaldtöku sem á sér 35 ára sögu.

Við eigum að nota tækifærið eftir hrun fjármálakerfisins til að taka allar fjárreiður ríkisins til endurmats, allar ákvarðanir og alla stofnanauppbyggingu. Því er þetta mál til bóta og það gefur okkur tilefni til að endurskoða önnur sambærileg gjöld sem tengst hafa hagsmunasamtökum í samfélaginu.