138. löggjafarþing — 153. fundur,  8. sept. 2010.

útlendingar.

507. mál
[14:14]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr):

Frú forseti. Ég er mjög ánægð með að við séum að leggja hornstein að bættum réttindum fyrir hælisleitendur og flóttamenn. Ég hef orðið þeirrar gæfu aðnjótandi að fá að kynnast mörgum þeim sem voru geymdir á gistiheimilinu Fit og átti að senda í einhvers konar huliðshjúp beint til Grikklands án þess að þeir fengju mikla aðstoð eða nokkur vissi af þeim. Sem betur fer hef ég fundið miklar breytingar á hugarfari gagnvart þessu fólki sem oft hefur verið á flótta um langa hríð og kemur frá löndum þar sem við höfum tekið þátt í stríðsrekstri, eins og Írak og Afganistan. Ég fagna því að aðbúnaður þess verði bættur og ég vonast til þess að það sé bara upphafið að því að við hlúum betur að þeim sem koma til Íslands og óska eftir hæli.