138. löggjafarþing — 154. fundur,  9. sept. 2010.

fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda.

597. mál
[11:59]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka andsvarið. Ég get frætt hv. þingmann um að það hefur ekki staðið á þingmönnum Hreyfingarinnar að vilja sníða ágalla af þessu frumvarpi. Stjórnmál eiga ekki bara að vera fyrir þá ríku, það má ekki gerast. Þess vegna verðum við einmitt að finna leiðir til þess að allir eigi kost á að taka þátt. Þar held ég að þessu opnu prófkjör séu algjörlega út úr myndinni því að þau krefjast þess að hver einstaki frambjóðandi sé með heila skrifstofu í kringum sig.

Mér hefur hugnast sú leið sem Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur farið með forvalið þar sem kynningin kemur frá flokknum sjálfum. Svo er það leiðin sem Borgarahreyfingin fór, að fólk hittist og ræði saman og stilli sér sjálft upp á lista í ágætu bróðerni. Það er annað í þessu. Ég held að stjórnmál þurfi ekki að kosta svo mikla peninga. Ég held t.d. að með einu pennastriki getum við bannað stjórnmálaflokkum að auglýsa í sjónvarpi. Við getum með öðru pennastriki krafist þess að Ríkisútvarpið gegni skyldum sínum og geri málefnum flokkanna, t.d. í aðdraganda kosninga, almennileg skil.