138. löggjafarþing — 155. fundur,  9. sept. 2010.

stjórnlagaþing.

703. mál
[15:11]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Það er rétt sem fram kom í máli formanns allsherjarnefndar hv. þm. Róberts Marshalls, það frumvarp sem hér er til umræðu er tæknilegt í öllum atriðum. Það lýtur að þeim þætti sem varðar atkvæðaseðilinn sjálfan sem hann gerði grein fyrir en þar er reyndar um að ræða fleiri tæknilega útfærsluþætti sem ekki er ástæða til að fjalla um í umræðum hér. Það eru fyrst og fremst lagfæringar varðandi útreikningsaðferðir og þess háttar sem fallast má á að æskilegt sé að koma í gegn.

Varðandi meginbreytinguna sem felst í frumvarpinu gat ég ekki tekið þátt í því að flytja frumvarpið ásamt hv. þm. Róbert Marshall og fleiri þingmönnum vegna þess að ég er þeirrar skoðunar, og hún hefur ekki breyst, að sé farið út í persónukjör af því tagi sem gert er ráð fyrir í stjórnlagaþingi tel ég að gagnvart kjósandanum sé miklu skýrara að hafa nöfn frambjóðenda á atkvæðaseðli frekar en að menn eigi að merkja inn númer. Jafnvel þó að ljóst sé að nöfnin geti orðið mörg tel ég að það sé skárra af tvennu illu að hafa langan atkvæðaseðil með mannanöfnum á frekar en búa til aukaflækjustig gagnvart kjósandanum sem felst í því að hann þarf að samlesa kjörseðilinn og einhvern lista sem hangir hugsanlega uppi á vegg í kjörklefa, og merkja inn númer á seðil.

Þetta er ekki mál sem gefur tilefni til mikillar umræðu. Ég vildi bara undirstrika þá afstöðu mína að ég tel að kjósendur í persónukjöri eigi að kjósa nöfn en ekki númer . Ég vek hins vegar athygli á því að ástæðan fyrir því að þessi breyting er talin nauðsynleg núna af tillöguflytjendum og þeim sérfræðingum sem þeir vísa til er sennilega fyrst og fremst sú að valið var við ákvörðun um hvernig framboðum skyldi háttað til stjórnlagaþings að hafa þröskuldinn fyrir framboðum tiltölulega lágan, þ.e. að menn þyrftu ekki marga meðmælendur til að geta farið í framboð til stjórnlagaþings. En vandinn sem framkvæmdaraðilar kosninganna standa frammi fyrir að þessu leyti væri miklu minni ef valin hefði verið leið sem reyndar var orðuð í umræðum allnokkrum sinnum, þ.e. að eðlilegt væri að gera kröfu til þess að þeir sem bjóða sig fram til stjórnlagaþings til að taka þátt í að semja stjórnarskrá hefðu tryggan stuðning og yfirlýsingar um stuðning frá tiltölulega stærri hópi en þeim nokkrum tugum sem gert er ráð fyrir í núgildandi lögum.