138. löggjafarþing — 155. fundur,  9. sept. 2010.

Stjórnarráð Íslands.

658. mál
[15:23]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta allshn. (Birgir Ármannsson) (S):

Hæstv. forseti. Taka má undir að það var öllu betra að málið skyldi fara til umsagnar hjá fagnefndunum sem í hlut eiga frekar en að sleppa því alfarið. Hins vegar verður að geta þess að eins og málsmeðferðin var, var hún meira formsatriði en að hún hafi kallað fram mikla efnislega viðbót.

Allir sanngjarnir menn hljóta að sjá að sá tími sem fagnefndunum var gefinn var afar knappur, svo ekki sé meira sagt. Auk þess hefur komið fram að meiri hluti í a.m.k. einhverjum nefndanna, ég býst við að það komi skýrar fram í umræðum á eftir, hafnaði því að fá inn gesti sem hugsanlega hefðu getað varpað öðru ljósi á málið en gerðist með því einu að stjórnarliðar í viðkomandi nefndum komu saman og lýstu sig sammála frumvarpi sem þeir áttu aðild að með því að styðja framlagningu þess í nafni ríkisstjórnarinnar. Það sætir auðvitað engum sérstökum tíðindum að þingmenn ríkisstjórnarflokkanna í nefndunum skuli vera fyllilega sáttir við það sem þeir höfðu áður samþykkt. Það bætir því ekki efnislega miklu við. Það ber að þakka að meiri hlutinn í allsherjarnefnd og hv. þm. Róbert Marshall skuli hafa orðið við beiðni um að málið gengi til fagnefnda á þessu stigi en það er alveg ljóst, miðað við þann tíma sem gefinn var, að ekki var við því að búast að mikið nýtt bættist við. Það styrkir ekki málið að mínu mati að fá álit þingmanna Vinstri grænna og Samfylkingar í nefndunum án þess að því fylgi frekari rökstuðningur og efnisleg viðbót við það sem áður hafði komið fram af hálfu stjórnarþingmanna. Látum það vera. Þetta er formsatriði, það skiptir máli en er kannski ekki aðalatriðið.

Aðalatriðið í mínum huga hefur frá upphafi verið að hér er ráðist í breytingar á Stjórnarráði Íslands sem vissulega eru, eins og frumvarpið lítur út núna, um það bil helmingi minni en lagt var upp með og erfiðustu málunum frestað til áramóta. Tveir ráðherrar a.m.k. eru að vísu settir á skilorð, eins og sagt hefur verið, og meira að segja boðað í nefndaráliti meiri hlutans að þeim verði á einhvern hátt skipt út um áramótin.

Í breytingarnar er ráðist án þess að fyrir liggi sú nauðsynlega undirbúningsvinna sem ætlast má til að sé unnin við slíkar breytingar á Stjórnarráði Íslands. Ég hef á tilfinningunni þegar ég hlusta á ræður þingmanna ríkisstjórnarflokkanna að í þeirra huga sé nægt tilefni og nægur undirbúningur fyrir nýja lagasetningu á Alþingi að ríkisstjórnarflokkarnir hafi komið sér saman um einhverja niðurstöðu. Með því að eitthvað standi í stjórnarsáttmála og með því að ríkisstjórnarflokkarnir hafi náð — reyndar á elleftu stundu — samkomulagi um að hrinda ákveðnum stjórnarsáttmála í framkvæmd, sé búið að vinna nauðsynlega undirbúningsvinnu undir lagafrumvörp. Málið er bara það, og leyfi ég mér að vera dálítill formalisti í því sambandi, að þegar lagafrumvarp er lagt fram er ekki nóg að fyrir liggi meginlínur í pólitískri stefnumótun. Það er líka ætlast til að búið sé að vinna nauðsynlega undirbúningsvinna undir lagasetningu sem á að virka í framkvæmd. Í þessu tilviki, eins og margoft var bent á við 2. umr., skortir alfarið þá undirbúningsvinnu.

Ég hef margoft farið yfir það að frumvarpið er lagt fram án þess að farið hafi fram greining eða mat á stöðu mála í dag. Stuðst er við orð í stjórnarsáttmála og orð í tveimur eða þremur skýrslum um að stefna beri að fækkun ráðuneyta. Gott og vel. Þau sjónarmið má lesa út úr t.d. skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis að gott sé að stefna að fækkun ráðuneyta. Við getum verið sammála um það. Það stendur í skýrslu sem var unnin af nefnd Gunnars Helga Kristinssonar fyrir forsætisráðherra að það eigi að fækka ráðuneytum og vinna að frekari sameiningu og efla stjórnsýslueiningar. Gott og vel. Þetta stendur. En þetta er almenn stefnumótun, þetta er ekki útfærsla. Hvorki í skýrslu rannsóknarnefndar né í skýrslu Gunnars Helga Kristinssonar og félaga er að finna útfærðar tillögur eða faglega greiningu. Sjónarmið eru sett fram og undir þau má taka. En vinnan hefur ekki verið unnin og hún var ekki unnin áður en frumvarpið var lagt fram. Hún hefur ekki verið unnin í meðförum þingsins, engin greining á stöðunni hefur farið fram, t.d. greining á því hvaða áhrif breytingarnar frá sumrinu 2009 hafa skilað eða breytingarnar frá 2007. Enginn hefur unnið þá vinnu. Menn hafa alls konar skoðanir en enginn hefur unnið vinnuna sem rennir stoðum undir þær skoðanir. Engin gögn liggja til grundvallar, ekki nokkur gögn. Við meðferð málsins í þinginu hafa engin ný gögn komið fram um þetta.

Engin greining hefur farið fram á því hvaða ráðuneyti mundi skila mestum árangri. Menn hafa látið í ljós skoðanir og allt er gott um það að segja en skoðanir eru eitt og faglegt mat er annað. Hina faglegu vinnu skortir alveg. Það er vandinn og á það hefur verið bent. Síðan eru fleiri sjónarmið sem ástæða er til að vekja athygli á. Ég hef nefnt að allt sem sagt hefur verið um samráð í málinu hefur verið svikið af hálfu ríkisstjórnarinnar. Síðasta sumar þegar breytingar voru gerðar á Stjórnarráðinu 2009, það lá svo mikið á að koma þeim í framkvæmd að það var ekki tími til samráðs, var í kjölfar þeirra sagt í ræðum í þinginu, í umfjöllun í nefnd og hvarvetna: Jú, við ætlum að klára lagasetninguna, svo förum við í samráð. Síðan líður ár. Ekkert samráð á sér stað. Það kemur bara fram nýtt frumvarp. Þegar spurt er: Hefur samráð verið viðhaft við undirbúning frumvarpsins? þá er sagt: Nei, við ætlum bara að klára þetta, svo förum við í samráðið. Nákvæmlega það sama er sagt núna og var sagt í fyrra. Fyrst á að klára lagasetninguna, svo á að fara í samráðið.

Ég hygg að hv. þingmenn stjórnarflokkanna trúi því þegar þeir segja að fara eigi í samráð. Ég ætla þeim ekki annað en þeir trúi því þegar þeir segja það, hvort sem er í ræðustól þingsins eða í nefndarálitum. Vandinn er sá að sporin hræða í þeim efnum Fram að þessu hafa alltaf verið höfð uppi fögur orð um samráð en þegar að því kemur er alltaf sagt: Nei, við verðum að klára lagasetninguna fyrst, ákveða fyrst hver niðurstaðan verður, svo förum við í samráðið. Þannig er það alltaf. Þetta er óskaplega mikið samráð. Ég hef áhyggjur af því hvernig þetta á eftir að reynast, ég verð að játa það.

Ástæða er til að staldra við fleiri þætti. Hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson hefur bent á marga veikleika í málinu og ég býst við að hann muni gera það á eftir, m.a. á grundvelli álita minni hluta sjálfstæðismanna í félags- og tryggingamálanefnd og heilbrigðisnefnd. Ég tek undir þau sjónarmið og vil sérstaklega vekja athygli á einu atriði sem fram kom í ræðum hans þegar málið var til 2. umr. Það er auðvitað sú mótsögn sem felst í því að þegar markmiðið er að stækka einingarnar í stjórnsýslunni til að efla þær, eins og það heitir, þá skuli byrjað á því að sameina stærstu ráðuneytin en ekki þau minnstu. Í því er töluverð mótsögn fólgin og vekur spurningar um hvaða heildarhugsun, hvaða rökhugsun býr að baki frumvarpsgerðinni.

Allt er málið töluvert ófullburða svo ekki sé meira sagt. Ég tel fulla ástæðu til að ítreka þetta vegna þess að þegar maður gagnrýnir handarbakavinnubrögðin við gerð frumvarpsins er oft reynt að snúa þessu þannig með því að segja, sem heyrðist ekki sjaldan við 2. umr.: Sjálfstæðisflokkurinn vill ekki sameiningu ráðuneyta, meinar ekkert með því sem hann segir um báknið burt, og annað þess háttar. Þetta er auðvitað fullkominn útúrsnúningur. Frá upphafi hefur legið ljóst fyrir að við þingmenn Sjálfstæðisflokksins styðjum að farið verði í endurskoðun á Stjórnarráðinu með það að markmiði að fækka ráðuneytum, efla einingarnar, færa saman verkefni sem eiga samleið og nýta þá peninga betur sem varið er í stjórnsýsluna. (Gripið fram í: Við stækkuðum það.) Við stækkuðum það, svo sannarlega og fengum til þess aðstoð ýmissa flokka, þar á meðal Samfylkingarinnar. En við eru tilbúnir til að taka þátt í vinnunni sem við getum verið sammála um að nauðsynleg sé til að draga úr kostnaði, efla einingarnar og gera kerfið skilvirkara, hagkvæmara og betra. Við erum tilbúnir í það. En við viljum að byrjað sé á vinnunni á réttum enda, byrjað á undirbúningsvinnunni áður en menn samþykkja ný lög á þinginu. Það er lágmarkskrafa okkar í málinu. Ég get ekki séð hvernig mönnum getur þótt það ósanngjarnt af okkar hálfu að gera þá kröfu. Er einhver ósanngirni í því fólgin að biðja um að mál séu unnin þokkalega áður en komið er með þau inn í þingið? Er ósanngjarnt að gera þá kröfu að búið sé að vinna lágmarksgreiningar- og matsvinnu áður en lögum er breytt á þessu sviði? Er það ósanngjarnt? Þingmönnum stjórnarflokkanna virðist þykja það alveg óskaplega ósanngjarnt af því að í þeirra huga er það nægileg ástæða til að samþykkja ný lög á Alþingi að ríkisstjórnarflokkarnir hafi klambrað saman einhverju samkomulagi um hvernig þeir eigi að haga hlutunum. Þá skiptir allur undirbúningur engu máli eða hvort málin eru faglega unnin. Þá skiptir engu máli hvort búið er að vinna nauðsynlega vinnu, hvort fylgt er þeim stöðlum sem gefnir hafa verið út, m.a. af hálfu hæstv. ríkisstjórnarinnar sjálfrar um hvernig vinna eigi lagafrumvörp. Það skiptir engu máli.

Öll ríkisstjórnin situr á ríkisstjórnarfundi 20. ágúst, bara svo dæmi sé tekið, og klappar fyrir sjálfri sér þegar hún gefur út það sem heitir Endurskoðaðar reglur um frágang lagafrumvarpa . Hún klappar fyrir sjálfri sér og segir: Sko, hvað við erum fagleg, nútímaleg og lýðræðisleg, sko hvað við erum frábær. Á sama tíma reynir hún að keyra í gegnum þingið frumvarp sem uppfyllir enga af þeim stöðlum, engar þær leiðbeiningar eða mælikvarða sem er að finna í þessum endurskoðuðu reglum. Þetta heitir, hæstv. forseti, hræsni. Þetta er ekkert annað en hræsni.

Endurskoðuðu reglurnar frá 20. ágúst voru svo sem ekkert nýmæli. Allt sem finna má í þeim er líka í Handbók um undirbúning og frágang lagafrumvarpa sem gefin var út af forsætisráðuneyti, dómsmálaráðuneyti og Alþingi árið 2007. Þar er þetta allt að finna, allar leiðbeiningar um hvernig ber að ganga frá lagafrumvörpum og undirbúa með faglegum hætti svo þau uppfylli gæðakröfur. Sú handbók hefur ekki verið umdeild á neinum pólitískum forsendum. Þvert á móti hafa allir flokkar og allir þingmenn mér vitanlega lýst því yfir að þarna sé að finna góða mælikvarða á það hvernig vanda beri til verka. Þetta eru mælikvarðarnir frá 2007. Þeir voru öllum kunnugir, þar á meðal hæstv. forsætisráðherra og ríkisstjórninni, þegar samþykkt var að leggja frumvarpið fram fyrir þinglok í sumar. Menn þekktu þetta allt saman, þeir gátu farið í handbókina og flett því upp blaðsíðu fyrir blaðsíðu hvernig haga ætti undirbúningsvinnu fyrir gerð lagafrumvarpa. En þegar liggur á að koma breytingum í gegn til að leysa einhver mál, styrkja ríkisstjórnina eða hvað þessar hrókeringar við ríkisstjórnarborðið eru kallaðar, þá skipta fagleg vinnubrögð engu máli. Þeim er öllum ýtt til hliðar af því að ríkisstjórninni, sem er svo gjörn á að hrósa sjálfri sér fyrir að vera nútímaleg, lýðræðisleg og fagleg og miklu betri á allan hugsanlegan hátt en allar ríkisstjórnir á undan, er alveg sama um faglega vinnu og lýðræðislegt samráð þegar hún þarf að leysa einhver innanhússvandamál og heimiliserjur, róa einhverja innan ríkisstjórnarinnar eða færa einhverja til. Það er allt eitthvert valdatafl.

Ég ítreka að það skiptir máli að fara í endurskoðun á Stjórnarráðinu en engu að síður er það nokkurt áhyggjuefni hve mikla áherslu núverandi ríkisstjórn leggur stöðugt á að breyta einhverjum skipuritum sem undir hana heyra í staðinn fyrir að takast á við aðkallandi og brýn vandamál sem snúa að fólkinu og fyrirtækjunum í landinu. Ríkisstjórnin er mjög oft fyrst og fremst með hugann við það að teikna ný skipurit, færa menn til og leika svoleiðis leiki, færa til ráðherra og embættismenn og breyta skipuritum meðan vandamál sem snúa að atvinnulífinu og heimilunum eru óleyst. Það hjálpar ekki endilega við úrlausn vandamála atvinnulífsins og heimilanna að öll orkan fari í innri skipulagsbreytingar á æðstu stöðum. En þetta er útúrdúr.

Aðalatriði er að frumvarpið er algerlega ótækt til afgreiðslu að mati okkar þingmanna Sjálfstæðisflokksins og við leggjumst eindregið gegn því. Við sátum hjá við ýmsar breytingartillögur við meðferð málsins eftir 2. umr. vegna þess að þær voru þó til þess fallnar að laga skavanka sem á frumvarpinu voru, eins og að fella t.d. út ákveðna hluta sem voru vanhugsaðir og illa útfærðir þótt það sem eftir stendur sé alveg jafnvanhugsað og illa útfært, en það er önnur saga. Svo það liggi algerlega ljóst fyrir og enginn þurfi að velkjast í vafa um það, þá leggjum við þunga áherslu á að við erum reiðubúnir í þá vinnu, jafnvel í pólitísku samráði, sem nauðsynleg er til að stokka upp stjórnsýsluna, bæði hvað viðkemur Stjórnarráðinu sjálfu og eins ýmsum stofnunum á vegum þess.

Ég get sagt fyrir sjálfan mig að ég fagnaði því þegar hæstv. forsætisráðherra lýsti því yfir á liðnum vetri að fækka ætti ríkisstofnunum. Ég held að hún hafi nefnt 80 og gekk þar mun lengra en nokkur annar hefur gengið. Þegar frjálshyggjan réð miklu hjá Viðskiptaráði, eða Verslunarráði eins og það hét áður, lögðu menn ráðin á um mun minni og hógværari niðurskurð opinberra stofnana en hæstv. forsætisráðherra lagði upp með. Ég fagna þeim sjónarmiðum forsætisráðherra. Vandinn er bara sá að fyrir hverja eina stofnun sem núverandi ríkisstjórn lætur sér detta í hug að leggja niður eða sameina virðast spretta upp þrjár, fjórar eða fimm nýjar. Það er vandinn. Þótt frumvarpið kunni á pappírnum að spara nokkur stöðugildi innan Stjórnarráðsins þá óttast ég að þegar til kastanna kemur muni það ekki leiða til sparnaðar. Þetta er eins og dæmið sem ég nefndi í 2. umr. um forsætisráðuneytið þegar tvær deildir voru fluttar úr forsætisráðuneytinu, ég held 5 starfsmenn. Það gerðist sumarið 2009. Færa átti Norðurlandaskrifstofu burt með þremur starfsmönnum og efnahagsskrifstofu með tveimur starfsmönnum. Ári síðar hefur starfsmönnum forsætisráðuneytisins fjölgað, ekki bara um þá fimm sem fækkað var síðasta sumar heldur einhverja í viðbót. Ég óttast að þetta sé tilhneigingin.

Nú á að fækka ráðherrum og það hefur verið gert. Ríkisstjórnin hefur stundum fækkað ráðherrum og stundum fjölgað þeim en í þessari lotu var þeim fækkað. Ég óttast að þess sé ekki langt að bíða að í staðinn fyrir að fækka ráðherrum með því að sameina t.d. stór ráðuneyti eins og félags- og tryggingamálaráðuneytið annars vegar og heilbrigðisráðuneytið hins vegar, líði ekki á löngu áður en menn koma til þingsins og segja: Þetta er svo stórt og viðamikið ráðuneyti. Nú þurfum við að fá aðstoðarráðherra. (GÞÞ: Þeir eru byrjaðir.) Þeir eru byrjaðir, er sagt. Talað er um aðstoðarmenn en ég held að við séum ekki að tala um það heldur að til viðbótar fáum við aðstoðarráðherra eins og við þekkjum frá öðrum löndum þar sem einn ráðherra er yfir stóru og viðamiklu ráðuneyti. Þá spyr ég: Hverju erum við bættari? Erum við einhverju bættari með því að hafa risaráðuneyti eins og sameinað heilbrigðis-, félags- og tryggingamálaráðuneytið ef deildaskipta því með einum aðalráðherra og undirráðherrum eða aðstoðarráðherrum? Ég veit það ekki. Ég óttast að ekki sparist mikið á því.

Það endurspeglast í áliti stjórnarþingmanna í allsherjarnefnd að þeir byggja stuðning sinn við frumvarpið á því að þeir trúa því að með því að sameina þau ráðuneyti sem hér um ræðir megi ná fram hagræðingu, sparnaði og skilvirkari stjórnsýslu. Gott og vel. Þeir trúa því, mjög gott. Vandinn er hins vegar sá að þeir hafa ekki komið með nokkur gögn því til staðfestingar að trú þeirra eigi við rök að styðjast. Vandinn er fólginn í því að þegar við afgreiðum lög á hinu háa Alþingi erum við ekki að afgreiða ályktun í stjórnmálafélagi eða á landsfundi samtaka eða eftir atvikum að samþykkja stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar. Við erum að samþykkja lög á Alþingi og þegar við gerum það eigum við að gera þá kröfu til sjálfra okkar og til ráðherra í ríkisstjórninni sem leggja fram frumvörp að þeir vinni heimavinnuna sína áður en þau eru lögð fram. Partur af heimavinnunni er að vinna nauðsynlega greiningarvinnu, skoða reynslu af fyrri breytingum, gera mat á núverandi stöðu og mat á áhrifum breytinga — ekki bara með því að slengja fram einhverjum skoðunum heldur mati sem byggir á faglegum vinnubrögðum. Við eigum líka að geta gert þá kröfu þegar lögð eru fram frumvörp af þessu tagi að byggt sé á eðlilegu samráði við þá sem málið varðar. Í þessu sambandi ætla ég svo sem ekki að kveinka mér undan skorti á pólitísku samráði. Því hefur oft verið lofað og aldrei við það staðið en ég ætla ekki að kveinka mér sérstaklega undan því. En í þessu máli var ekki haft samráð við neinn, ekki nokkurn mann utan ríkisstjórnarinnar, áður en frumvarpið var lagt fram. Eftir að málið kemur inn í þingið er ljóst að öll orkan sem snýr að samráði hefur farið í það að hafa samráð innan ríkisstjórnarflokkanna. Það hefur verið erfitt, langt og sársaukafullt ferli, niðurstaða er reyndar komin um það í bili, en um samráð við aðra verður að segja að það er allt í skötulíki.

Eins og fyrr lýsum við þingmenn Sjálfstæðisflokksins í allsherjarnefnd andstöðu við frumvarpið með vísan til þess sem við áður höfum sagt. Við lýsum yfir miklum efasemdum um að núverandi ríkisstjórn geti komið fram með þessum hætti við Alþingi. Vinnubrögðin eru þess eðlis að þau standast enga skoðun og enga mælikvarða. Ef þetta gefur einhverja línu um það hvernig ríkisstjórnin hyggst vinna áfram að breytingunum sem boðaðar eru, t.d. í sambandi við sameiningar stofnana og þess háttar, þá er ekki von á góðu, hæstv. forseti.