138. löggjafarþing — 155. fundur,  9. sept. 2010.

Stjórnarráð Íslands.

658. mál
[16:33]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég átta mig ekki alveg á hvað hv. þingmaður er að fara. Ég sat nefndafundi í sumar og var ekkert að kveinka mér undan því. Ég held að almenna reglan hafi verið sú að hv. þingmenn hafi verið á nefndafundum í sumar, sérstaklega í ágústmánuði. (ÞBack: Ekki í þinghléi.) Ég veit ekki hvernig hv. þingmaður getur dregið þá ályktun að ekki væri hægt að nýta sumarið til samráðs. Ef það hefur ekki verið hægt skil ég ekki af hverju í ósköpunum menn settu þennan texta í frumvarpið og töluðu um það í vor ef aldrei stóð til að fara eftir því.

Hv. þingmaður upplýsir að hún hafi ekki séð þau gögn og þær greiningar sem liggja fyrir í forsætisráðuneytinu. Ég spyr þá hvort hv. þingmaður sé ekki tilbúin til að beita sér fyrir því að þingmenn fái þessi gögn og þessar greiningar. Þó að það sé orðið ansi seint held ég að það væri afskaplega fróðlegt að fá gögnin og greiningarnar og ég mun fara fram á það. Núna tel ég víst að þau séu til úr því að hv. formaður heilbrigðisnefndar upplýsir okkur um það því að það kom ekki fram við afgreiðslu málsins. Það kom í það minnsta ekki fram í heilbrigðisnefnd en við fengum málið til umfjöllunar á klukkutímafundi og báðum sérstaklega um gögnin sem lægju til grundvallar en fengum ekki. Hér er upplýst að þau eru til staðar. Ég spyr hv. þingmann hvort hún sé ekki tilbúin til að beita sér fyrir því að við fáum þessi gögn.