138. löggjafarþing — 159. fundur,  13. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[17:36]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka kærlega fyrir svarið. Það kann vel að vera að stefna og gildi Sjálfstæðisflokksins sem slíks hafi ekki leitt okkur í hrunið. Svo mikið þykist ég þekkja til stefnu þess flokks að í henni sé fólgið margt annað en það sem ég nefndi, markaðsvæðing og nýfrjálshyggja. En því er ekki að neita að á undanförnum árum hefur sú stefna, sú hugmyndafræði, yfirskyggt flest annað í stefnu hans. Hugmyndafræðin um frelsi einstaklingsins er auðvitað markverð og góð og það er rétt að öllu frelsi fylgir ábyrgð. En sú hugmyndafræði sem ég nefndi og dró til ábyrgðar fyrir hruninu kristallast í því að menn máttu og áttu að fara sínu fram svo lengi sem markaðurinn þoldi það. Það var markaðarins, leikreglurnar voru settar af markaðnum sem slíkum og allt skyldi út á torgið, ganga þar kaupum og sölum. Eftirspurnin var meira að segja skipulega búin til. Ef það er eitthvað sem markaðurinn stjórnast af er það eftirspurn og framboð. Lykillinn að fallinu var m.a. það að falsa markaðinn. En það var allt í lagi svo lengi sem markaðurinn „regúleraði“ sig sjálfur eða hafði eftirlit með sjálfum sér.

Þetta er kannski ekki mikið andsvar lengur heldur samtal en ég hlýt þá að spyrja hv. þingmann: Ef þetta er ekki hugmyndafræði og ef þetta er ekki stjórnmálamannanna og stjórnvaldanna, hvað átti Alþingi, sem að mati þingmannsins brást líka, að gera til að koma í veg fyrir hrunið?