138. löggjafarþing — 161. fundur,  15. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[11:34]
Horfa

Anna Margrét Guðjónsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Ásbirni Óttarssyni fyrir spurningar hans. Pólitísku ráðningarnar og hvernig þær hafa undið upp á sig undanfarna mánuði verð ég að viðurkenna að ég þekki ekki sem skyldi og get því ekki svarað því. En við vitum þó við lestur skýrslunnar og mér er dálítið umhugað um að horfa á síðustu helgina, Glitnishelgina, að það var fyrst og fremst pólitískt þjappað vald og vinir sem réðu atburðarásinni. Það var mjög örlagaríkt.

Ég er hjartanlega sammála því og ég er mjög hrifin af þeirri hugmynd að sett verði upp ein miðlæg stofnun fyrir alla stjórnsýsluna sem sjái um ráðningar og tryggi að þær verði faglegar. Og ég held að það sé mikilvægt núna við endurskipulagningu á stjórnsýslunni eða stjórnkerfinu að við notum tækifærið og gefum starfsmönnum kost á að hreyfa sig milli ráðuneyta því að þeir geta verið á vitlausum stað. En svo er líka annað mál hvernig gengur að losa okkur við embættismenn sem hugsanlega sinna ekki starfi sínu. Það er líka einn angi sem við þurfum að skoða betur.

Ég er líka sammála hv. þm. Ásbirni Óttarssyni að ráðherrar eigi að geta tekið fleiri með sér inn í ráðuneyti en einn pólitískan aðstoðarmann. Ég tala ekki um þegar ráðuneytin verða stækkuð eins og nú verður að veruleika þá er mjög mikilvægt að þeir geti haft nokkra pólitíska starfsmenn í kringum sig. Þeir þurfa kannski að hafa með sér heilt „kabinet“ eins og það heitir á útlensku. Mér finnst það skynsamlegt og ég er hlynnt því.

En um innleiðingu tilskipunar Evrópusambandsins, sem hv. þm. Árni Þór Sigurðsson kom inn á í gær, þá er það mál í ágætisfarvegi, skilst mér, á vettvangi utanríkismálanefndar, ég þekki það ekki. En ég ítreka að við höfum verið helst til of feimin og hrædd beinlínis vegna vanþekkingar að laga tilskipanir að íslenskum aðstæðum — við höfum svigrúm til þess — en ekki reglugerðir, þær getum við ekki lagað.