138. löggjafarþing — 161. fundur,  15. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[12:35]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Það er hárrétt hjá þingmanninum að sú sem hér stendur hefur aldrei verið almennur þingmaður. Hins vegar er ég afar mikill lýðræðissinni og ég er einmitt þeirrar skoðunar að það fari ekki sérstaklega vel á því að öll frumvörp séu bara samin í ráðuneytum. Löggjafarvaldið er hjá þinginu og aðstæður fyrir þingið til að sinna því hlutverki sem því ber samkvæmt lögum ættu náttúrlega að vera mun sterkari.

Varðandi spurningu hv. þingmanns um aðildarumsókn að Evrópusambandinu þá heyri ég það á mæli hans að hann les atkvæðaskýringu mína reglulega sjálfur því að ég held að þetta sé í annað eða þriðja sinn sem ég kem hér upp til þess að fjalla um hana einmitt í samtölum við þennan ágæta þingmann. Það fer vel á því og ég svara því þá rétt eins og ég svaraði því á sínum tíma.

Ég er þeirrar skoðunar, alveg burt séð frá öllu oddvitaræði, að það sé komið að því að þjóðin fái aðildarsamning til að taka afstöðu til. Ég er þeirrar skoðunar á mjög einlægan máta að það sé slæmt að halda upplýsingum frá þjóðinni og klára umræðuna með slagorðum.

Ég er hins vegar mjög hugsi yfir því að það kunni að hafa skort á gagnsæi þessa ferlis sem hefur átt sér stað eftir að umsóknin var samþykkt hér á Alþingi. Gagnsæi ferlisins þarf að vera algjört og það var útgangspunktur okkar þegar tillagan var samþykkt að það væri grundvöllur þess að ferlið ætti að halda áfram því að annars getur hvorki þingheimur né almenningur í landinu tekið upplýsta ákvörðun.