138. löggjafarþing — 163. fundur,  20. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[12:02]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Menn eru voðalega pirraðir hér í salnum. Furðulegt hvað menn eru viðkvæmir fyrir þessari umræðu. Ég verð að segja við hv. þm. Atla Gíslason að ég held að hægt sé að deila um hvort þau mannréttindaviðmið sem við höfum sett í lög undanfarna áratugi um réttarstöðu sakbornings séu í þessu tiltekna máli eins við mundum helst vilja sjá. Það er ekki alveg saman að jafna þessu ákveðna danska tilviki og því sem hér er á ferðinni.

Varðandi það sem hv. þingmaður spyr, hvaða lögfræðingar hafi skoðað sérstaklega þessi tilteknu ákvæði, 8. gr. og 10. gr., ég nefndi reyndar ekki 8. gr., ég nefndi 10 gr., get ég t.d. nefnt ritgerð Róberts Spanós þar sem hann gat ekki sagt að þetta væri það skýrt ákvæði að eftir því skyldi fara.