138. löggjafarþing — 163. fundur,  20. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[12:57]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég man ekki til þess að nokkurn tímann í þessu ferli hafi hv. þingmaður eða þingheimur gert athugasemdir við verkferlið fyrr en nú á síðustu dögum og ég benti á að komið hefði fram að menn væru að leita ýmissa leiða, þeir hafa lýst því hér yfir að málið sé ótækt og ómögulegt og viljað vísa því hingað og þangað. Ég vantreysti ekki þingmönnum allsherjarnefndar og mundi treysta þeim til allra góðra verka en benti bara á að farnar eru aðrar leiðir en hefðbundið er. Ég hvatti (Gripið fram í.) þingheim til þess að kynna sér málið ítarlega í þeim greinargerðum, greinum og gögnum sem fyrir liggja, eins og þingmannanefndin hefur gert og aðrir geta gert líka. Ég tek fyllilega undir orð hv. þingmanns að hver einasti þingmaður getur gert það, og að við mundum síðan ljúka málinu með atkvæðagreiðslu í þinginu. Að því væri sómi fyrir þingið.