138. löggjafarþing — 163. fundur,  20. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[14:19]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Ég vísaði reyndar í það í upphafi ræðu minnar að ég tæki undir það sem kom fram í ræðum hv. þingmanna Atla Gíslasonar og Sigurðar Inga Jóhannssonar. Við fórum í gegnum bæði það sem varðaði mannréttindaþáttinn og hvort ástæða væri til að ákæra og hvort það færi yfir 51% þröskuldinn. Ég held að fundirnir hafi verið um 30 ef ekki fleiri. Ég verð að viðurkenna að ég átti erfiðast með þennan þröskuld gagnvart fyrrverandi viðskiptaráðherra, en ég komst að þessari niðurstöðu eftir að hafa hlýtt bæði á mál sérfræðinga, lögfræðinga, og rætt við aðra félaga mína í þingmannanefndinni að það væri tilefni til ákæru.