138. löggjafarþing — 163. fundur,  20. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[14:22]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir afburða góða vinnu í þingmannanefndinni sem kom fram í skýrslunni sem við ræddum í síðustu viku. Þegar Borgarahreyfingin kom inn á þing batt ég ákveðnar væntingar við hana vegna þess að ég er svona uppreisnarmaður í eðli mínu, en hún brást mér strax í fyrstu vikunni þegar hún beitti pólitískum klækjum til að komast inn í nefndir. Nú hefur hún brugðist mér aftur með því að setja leynd á einhver skjöl. (Gripið fram í.) Hv. þingmaður segir að almenningur (Gripið fram í.) hafi ekki upplýsingar um sömu (Gripið fram í.) gögn og — hv. þingmaður á ræðutíma á eftir. Er það ekki til að svara? Að almenningur hafi ekki upplýsingar um sömu gögn og ráðherrar og þingmenn. Svo er sami hv. þingmaður búin að setja loku á það í sinni nefnd að birta megi gögnin sem eru hér í leyniherberginu sem ég er búinn að lesa og sýna mér að flestir ráðgjafarnir voru með fyrirvara. Það var aldrei nefnt.