138. löggjafarþing — 163. fundur,  20. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[17:51]
Horfa

Árni Johnsen (S):

Virðulegi forseti. Umræðan er komin á sérkennilegt stig. Vélað er um nýjan stíl í Alþingi þar sem allir þingmenn eiga að gerast lögfræðingar. Ég vona til guðs að svo verði ekki. Það yrði ljóta moðsuðan, virðulegi forseti, ef hér væru eingöngu lögfræðingar þótt þeir séu allra góðra gjalda verðir.

Ég hef oft sagt í þinginu, virðulegi forseti, að Atli Gíslason sé góður lögfræðingur. Ég hef talað um hann sem einn af betri lögfræðingum landsins og ekkert lumað á þeirri skoðun minni. En nú hefur hv. þm. Atla Gíslasyni orðið skreipt á skötunni, skreipt á skötu pólitíkurinnar, fallið fyrir björg með því að víkja frá réttlætinu fyrir pólitíska geðþóttaákvörðun, víkja lögunum fyrir hégóma og hefnigirni. Það er ekki hægt að kalla það annað. Ekki er hægt að lesa neitt annað út úr því.

Þar sem mér þykir undurvænt um Atla Gíslason og sé að það er búið að valda skemmdum á honum þá síg ég í björg til að reyna að koma hv. þm. Atla Gíslasyni upp úr svartholinu sem hann er í með tillögunum sem hann og meiri hluti nefndar hans stendur fyrir.

Málið er auðvitað þannig að hæstv. forsætisráðherra Jóhanna Sigurðardóttir slátraði því þegar leggja átti fram tillögur um ákærurnar á Alþingi. Hún slátraði því með því að staðfesta í sjónvarpsviðtali að markmiðið með sannleiksnefndinni svokölluðu, eða súrkálsnefndinni eða hvað hún er kölluð, væri að róa mannskapinn. Markmiðið með því að setja hana á stofn hafi verið að róa mannskapinn.

Við verðum að virða það sérstaklega við hæstv. forsætisráðherra að í ræðu hennar á eftir dró hún mjög mikið í land. Það var merkilegt að heyra hæstv. forsætisráðherra nánast afneita ákærutillögum nefndar Atla Gíslasonar. Það var mjög sérstakt að heyra það. Ég fagna niðurstöðu hennar og afstöðu sem hún kvað byggja á miklum efasemdum um veikleika ákæranna og veikleika landsdóms.

Við hv. alþingismenn eigum ekki að sækja að fólki með nautshornum til að stinga það og meiða. Við Íslendingar eigum að sækja í okkur veðrið og bæta það sem fór úrskeiðis, ekki hanga í hendi með refsingum þegar þjóðfélagið kallar á árangur til handa heimilum og atvinnulífi, að hjólin fari að snúast áfram en ekki aftur á bak eins og hjá hæstv. ríkisstjórn.

Skýrsla sumarnefndar Alþingis varðandi bætt vinnubrögð og stöðu í þinginu er ágæt og margt nýtilegt þar og brúklegt. En nefndin átti að slá landsdóm út af borðinu einfaldlega af því að hann á að byggja á pólitískum ákærum undan rifjum stjórnmálamanna. Ótrúlegt er hvernig vænsta fólk í sumarnefndinni reynir að troða sér í dómarabuxur og út kemur samhengislaust rugl. Af hverju slepptu þau til að mynda kröfum um að kæra hæstv. ráðherra Össur Skarphéðinsson, Jóhönnu Sigurðardóttur og fleiri þingmenn og ráðherra sem voru í partíinu? Ef þau hafa sofnað á verðinum og bera því við að þau hafi sofnað í partíinu þá byggjast ákærur sumarnefndarinnar á því að kæra þá sem sofnuðu á verðinum í eiginlegum skilningi við stjórn landsins. En hver er munurinn á því að sofna djúpum svefni eða svefni í vöku? Hann er ekki mikill.

Það er ekki hægt að loka augunum fyrir því að ríkisstjórn og ríkisstjórnir undanfarna marga áratugi hafa unnið í samfellu. Það kemst enginn undan og segja að hann viti ekki hvað er að ske í ríkisstjórninni. Ef menn segja það þá er það alvarleg vanræksla. Skylda ráðherranna er að vinna saman, sama hvað lagablóminn segir um hina svokölluðu ráðherraábyrgð sem nefndin skilar ekki einu sinni samhljóma áliti um, til að mynda varðandi fyrrverandi viðskiptaráðherra Björgvin G. Sigurðsson.

Ég vil taka það strax fram að alrangt er að mínu mati að ákæra viðkomandi ráðherra. Það er út úr kortinu vegna þess að ákært er fyrir það að þeir áttu að vita það sem þeir vissu ekki og enginn vissi fyrr en eftir að það var skeð. Það er mergur málsins. Ef ákæra byggir á svo veikum grunni að ekki er hægt að reikna með sakfellingu, þá á að sleppa ákærunni.

Brynjar Víglundsson hæstaréttarlögmaður deildi mjög harkalega á að ákærur væru lagðar fram þegar grunnurinn væri ekki sterkur. Hann sagði að ákæra út af fyrir sig væri ákaflega alvarlegur áfellisdómur og árás á friðhelgi og mannréttindi einstaklinganna. Þetta er vandasamt mál og taka verður tillit til þess. Málatilbúnaðurinn er á svo veikum grunni og úr takti við hefð íslenskra nútímalaga um réttlæti og mannréttindi. Það er vandamálið og ugglaust þess vegna hefur hæstv. forsætisráðherra tekið núna af skarið að hugsuðu máli og talið að málinu hafi verið hleypt of langt. Það er synd að málið skuli komið í þann gír vegna þess að nú er það fyrst og fremst hv. þm. Atli Gíslason formaður nefndarinnar, sem situr með ábyrgðina og hefur ekki það bakland sem hann reiknaði með. Það eru ekki góð stjórnunarvinnubrögð og traustvekjandi.

Á sínum tíma voru sjúklingar á Kleppi settir í heit böð til að róa þá. Nú á að róa fólk í landinu með því að skvetta köldu vatni á vini og vandamenn, ala á tortryggni, illmælgi, öfund og vinslitum með ákærum sem ganga ekki upp í samfélagi okkar, sem meira og minna hefur byggt á trúnaði, hispursleysi og hreinlyndi.

Ef sakfella á stjórnendur landsins fyrir að vita ekki fyrir það sem síðar kom í ljós, fyrir að vera ekki forspáir, þá ætti að ákæra tugþúsundir stjórnmálamanna í Evrópu og alla forustumenn íslensku bankanna sem lugu samhljóða að ríkisstjórn Íslands.

Góðir alþingismenn. Góðir Íslendingar. Viljum við innleiða Sturlungaöld aftur í íslenskt samfélag þar sem menn slátruðu hver öðrum til gamans? Viljum við taka upp hátt ættbálka í svörtustu Afríku þar sem útlimir manna voru höggnir af fyrir minnstu mistök, fyrir bolla af grjónum eða svo, á vitlausum stað og vitlausri stund? Viljum við taka upp dómstóla kommúnistaríkjanna í Austur-Evrópu fyrr á árum þar sem pólitískur geðþótti réð ferðum og mönnum var slátrað fyrir hugsanlegan sauðshátt, ekki endilega sannaðan eða áþreifanlegan? Viljum við taka upp vinnubrögð spænska rannsóknarréttarins frá 16. öld þar sem mönnum var smalað saman og þeir pyntaðir til að játa rétta trú eða deyja ella? Framsetning ákæranna hjá meiri hluta Atla-nefndarinnar væri trúverðugri ef áhöfnin væri í sérbúningum eins og spænski rannsóknarrétturinn á 16. öld, köflóttum lafafrökkum með ganneringum í litum nautaatanna og í níðþröngum sokkabuxum með táflautuskóm. Það mundi undirstrika réttlætiskennd dómaranna í Atla-nefndinni.

Viljum við innleiða stíl Þorgeirs Hávarðssonar í Gerplu þar sem hann hjó mann í herðar niður af þeirri einni ástæðu að hann lá svo vel við höggi, var hálslangur og hallaði sér fram á orf, og fékk sveðjuna í gegnum sig. Þessi stíll er nú orðinn stíll Atla-nefndarinnar sem hefur tekið ljáinn í sínar hendur til að höggva mann og annan og vill gefa skít í réttlætiskerfið, lýðveldi þjóðarinnar. Viljum við taka upp dómstólakerfi einræðisríkja og valdníðinga í heiminum, dómstóla sem eiga að byggja á pólitískum geðþóttaákvörðunum stjórnmálamanna? Viljum við í raun ákæra á afar veikum grunni til að mynda hæstv. fyrrverandi utanríkisráðherra Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur sem þarf á öllu sínu þreki að halda til að styrkja heilsu sína eftir afar erfið veikindi? Nei, þorri landsmanna vill ekki slíkt. Viljum við lifa í samfélagi ótta og refsinga þar sem öllum er sigað á alla? Viljum við taka upp siði Rómaveldis hins forna þar sem mönnum var hent fyrir ljón til að róa mannskapinn?

Því miður, virðulegi forseti, eru þetta hugsanirnar sem koma upp þegar maður veltir málinu fyrir sér og ekki er skemmtilegt að fjalla um það á þeim nótum. Það er grábölvað, virðulegi forseti. En þetta snertir mann á þennan hátt og þá verður að segja sína skoðun hispurslaust og einlægt. Viljum við láta mannleg mistök yfirgnæfa allt annað og elta ólar við þau?

Allt orkar tvímælis þá gert er en það rifjast upp lítið atvik, svona til gamans, þegar valinkunnir sómamenn gerðu þau mistök við veiði í Hítará að ruglast á maðki og flugu. Þá orti Halldór Blöndal, fyrrverandi forseti Alþingis:

Til voru þeir sem sögðu satt og sumir lugu,

þekktu ei mun á maðki og flugu.

Þetta eru smáatriði sem skipta engu máli en eru kannski liður í gálgahúmor Íslendinga og mér finnst bara jákvætt og skemmtilegt. En svona verða smáatriðin oft að stórum og gert meira úr þeim en efni stendur til. Viljum við láta alþingismenn striplast með pólitískt réttlæti og pikka út gesti og gangandi, setja menn í snöruna til að róa mannskapinn?

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir kom Jóhönnu til æðstu metorða og auðvitað er það m.a. þess vegna sem hún hlýtur að vera efins um réttlæti þess að ganga gegn gamalli vinsystur sinni á veikum grunni þó að ábyrgðin sé mikil og skyldan rík. Þá vaknar gamla íslenska máltækið að sjaldan launar kálfur ofeldið. Það á þó ekki við hér en minnir á Sneglu-Halla þátt þar sem Þjóðólfur skáld og Sneglu-Halli steyttu á orðum í návist Haraldar konungs, með leyfi forseta. Málið vék að vígahefndum Þórólfs sem vændi Sneglu-Halla, barn að aldri, um linku þegar faðir hans var veginn. Sneglu-Halli bar við að ættmenn hans hefðu samið um grið og ekki kvaðst hann vilja vera griðníðingur. Þá mælti Halli, virðulegi forseti, við Harald konung:

„Herra,“ segir hann, „Þjóðólfur má því um slíka hluti djarflega ræða því að öngan veit eg síns föður jafngreyplega hefnt hafa.“ „Hvað er að merkjum of það,“ segir konungur, „að hann hafi það miklu framar gert en aðrir menn?“ „Það þá herra,“ svarar Halli, „að Þjóðólfur hefir etið föðurbana sinn.“ Konungur mælti: „Hví megi svo vera?“ „Því herra,“ svarar Halli, „að Arnór faðir hans bjó fyr norðan land á Íslandi. Hann var maður félítill og ónógur sér of það er hann þyrfti nema það að hann átti mart barna og hafði það hyski hans að mestum hluta er héraðsmenn fengu honum. Og á einu hausti áttu héraðsmenn fund að of fátækja menn, hver tillög vera skyldu við þá, og var eigi annar fyrr til nefndur en faðir Þjóðólfs og varð einn maður, herra, svo stórlátur að hann gaf kálf sumargamlan. Fór hann síðan eftir kálfinum og þótti það mest nauðsyn að sækja þangað fyrst til beinann er mestur var. Fer hann heim síðan og leiðir eftir sér kálfinn og hefir á honum taug langa og rammlega og var eygð taugin sem snara og hafði hann þeim endanum smeygt á háls sér en hélt síðan höndunum of taugina. Og er hann kom að garðinum þá var hann utan eigi allhár en fyrir innan garðinn var gröftur djúpur og er hann steig á garðinn og lætur sígast af inn þá verður hærra en hann mundi vara og tóku eigi niður fæturnir hans en kálfurinn braust öðrum megin garðsins. Þá hefir hann eigi gáð að smeygja tauginni af hálsi sér og fékk hann af því bana. Og er börnin sáu það hljópu þau til og drógu heim kálfinn og ætla eg það herra,“ segir Halli, „að Þjóðólfur snæddi þann kálf að sínum hluta.“

Nú er hæstv. ríkisstjórn eiginlega í sömu sporum og kálfurinn í Sneglu-Halla þætti og virðist vilja snöruna um vinsystur sína Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur. Það er að minnsta kosti allt frekar óljóst enn þótt menn hviki nú eitthvað frá fyrri yfirlýsingu. Nýsögð orð hæstv. forsætisráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur vekja vonir um betri tíð. Viljum við byggja á pólitísku geðþóttaréttlæti? Ég hygg að þorri þjóðarinnar vilji það ekki. Við viljum fylgja gullnu reglunni, eins og segir í Biblíunni í Mattheusarguðspjalli, með leyfi forseta:

„Allt sem þér viljið að aðrir menn geri yður, það skuluð þér og þeim gera. Því að þetta er lögmálið og spámennirnir.“

Og í Mattheusi 22. kafla segir:

„Og einn þeirra, sem var lögvitringur, vildi reyna hann og spurði: „Meistari, hvert er hið æðsta boðorð í lögmálinu?“ Jesús svaraði honum: „Elska skalt þú Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni og öllum huga þínum. Þetta er hið æðsta og fremsta boðorð. Annað er hliðstætt þessu: Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.“

Þetta ætti að vera gullna reglan hjá okkur Íslendingum, hjá okkur alþingismönnum, að hjálpa hver öðrum, sérstaklega ef á bjátar.

Orð Biblíunnar bregðast aldrei. Kærleikurinn, mildin og fyrirgefningin eiga að vera í fyrirrúmi. Víkjum hugmyndinni um landsdóm frá. Hefjumst þegar handa um uppbyggingu þess sem skiptir mestu máli og grundvallast á heimilunum og atvinnulífinu í landinu.

Varðandi efasemdir ákærutillögunnar og veikleika hennar þá tek ég aftur undir orð hæstv. forsætisráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur, enda eru þau í stíl hennar til langs tíma og skamms, að verja þá sem á hallar. Það ættu þingmenn að sameinast um til að skapa ró en slíta ekki friðinn.