138. löggjafarþing — 164. fundur,  21. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[11:15]
Horfa

Flm. (Atli Gíslason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef sagt að það hafi valdið mér vonbrigðum að ekki skyldi koma fram minnihlutaálit frá þingmönnum Sjálfstæðisflokksins í þingmannanefndinni. Ég vil spyrja hv. þingmann Bjarna Benediktsson hver sé afstaða hans til niðurstöðu rannsóknarskýrslunnar til vanrækslu; er hann sammála henni eða ósammála?

Ég vil í öðru lagi spyrja út frá þessu stjórnarskrárbundna hlutverki þingsins og þeim skyldum sem lagðar voru á okkur með lögum nr. 142/2008 hvort þingmenn Sjálfstæðisflokksins séu tilbúnir að láta þetta mál ganga til atkvæðagreiðslu nú á haustþingi. Ella virðist mér blasa við, ef þingið axlar ekki þessa ábyrgð, að þörf sé á að endurnýja umboð þingmanna með þingkosningum. Ég vildi gjarnan vita það.

Ég er mjög ósammála hv. þingmanni þegar hann segir að engin hættumerki hafi verið á lofti, ekkert fyrirsjáanlegt. Það er bara rangt vegna þess að á fundi 7. febrúar 2008 með seðlabankastjórum komu fram þær upplýsingar að bankakerfið þyldi níu mánuði í viðbót. Lausafjárstaðan var þannig, lánalínur lokaðar o.s.frv. Síðan blikkuðu hættumerki stöðugt eftir það. Meira að segja var skrifað undir samning eða yfirlýsingu 15. maí. Síðan er sagt að ekkert tjón hafi orðið. Svo virðist vera sem innherjaupplýsingar hafi borist af þessari vitneskju þannig að menn í bankakerfinu og aðrir fóru að bjarga sér frá borði. Það er alveg ljóst að stofnaðir voru Icesave-reikningar þegar þessar upplýsingar lágu fyrir. Það er enn fremur ljóst að stærstu eigendur bankanna sumarið 2008 tóku út risastór lán án veðtrygginga. Og halda því fram að ekkert tjón hafi orðið og ekkert hafi verið fyrirsjáanlegt þrátt fyrir að þessar bjöllur hafi klingt eins og stærstu kirkjuklukkur finnst mér bera vott um það sem kallað er í skýrslunni pólitísk lömunarveiki. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)