138. löggjafarþing — 164. fundur,  21. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[15:52]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Á árunum 2006 og 2007, án þess að ég ætli að fara í eitthvert skæklatog hér, lá það alveg ljóst fyrir að það var stefna Samfylkingarinnar að við yrðum að ná jafnvægi í íslensku hagkerfi, það væri kominn allt of mikill hiti og mikil þensla í hagkerfið. Það var kjarninn í okkar efnahagsstefnu fyrir þær kosningar og við vöruðum einmitt við því hvað mundi gerast með banka sem gætu verið á svo veikum grunni að þeir væru viðkvæmir fyrir áföllum á alþjóðlegum fjármálamarkaði.

Það sem hv. þingmanni er hins vegar greinilega nokkuð sárt er að menn dvelji við stjórnsnilld aðalbankastjóra Seðlabankans. En það er auðvitað sú staðreynd sem eftir stendur eftir þetta hrun að okkur tókst að forða því að ríkisvæða tap bankanna en á almenningi í landinu lentu í staðinn 300 milljarðar fyrir handvömm, fáfræði og vankunnáttu þáverandi stjórnvalda í Seðlabankanum.