138. löggjafarþing — 164. fundur,  21. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

707. mál
[17:55]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil fyrst segja að ég er sammála því að það er auðvitað ekki nokkurt tilefni til þess að ákæra fyrrverandi viðskiptaráðherra né aðra þá ráðherra sem rætt er um í málsskjali því sem við ræðum um. En ég verð að segja að ég átta mig ekki alveg á því orsakasamhengi sem liggur hér til grundvallar. Í rökstuðningi flutningsmanna, hv. þm. Oddnýjar G. Harðardóttur og Magnúsar Orra Schrams, er vísað í tiltekna fundi sem haldnir hafi verið án vitundar fyrrverandi viðskiptaráðherra. Sumir þessara funda fóru reyndar fram innan vébanda nefndar þar sem viðskiptaráðuneytið átti fulltrúa en frá því er greint að niðurstöður þeirra funda hafi ekki borist til þáverandi viðskiptaráðherra.

Er það þá þannig að mati flutningsmanna að þessir tilteknu fundir sem vísað er til í rökstuðningi þeirra hafi skipt sköpum, að þarna hafi verið sem upplýsingarnar komu fram sem hefðu valdið straumhvörfum? En fyrrverandi viðskiptaráðherra hefði fengið upplýsingar af þessum fundum sé það skoðun hv. þingmanna að öðru máli hefði gegnt og það hafi verið á þessum fundum sem upplýsingarnar hafi komið fram sem hefðu átt að gefa tilefni til einhverra aðgerða sem hefðu mögulega haft áhrif á niðurstöðu mála á árinu 2008?

Mér finnst þetta vera óskaplega matskennt, svo ekki sé meira sagt, og alls ekki hægt að byggja ákvörðun sína á einhverri slíkri röksemdafærslu. Hún er augljóslega á mjög veikum grunni reist og getur ekki verið tilefni til nokkurrar niðurstöðu.

Ég ítreka það hins vegar að það eru engin efni til þess að ákæra fyrrverandi viðskiptaráðherra og fyrir því eru annars konar (Forseti hringir.) rök sem ég kann hugsanlega að fara yfir síðar í þessari umræðu.