138. löggjafarþing — 167. fundur,  27. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[14:20]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hún hrópar á mann þögnin hér vegna þess sem fyrrverandi utanríkisráðherra hefur bent á í umræðunni undanfarna daga, að verið sé að gera henni að sök að hafa ekki gripið til aðgerða sem voru skýrt á valdsviði annarra ráðherra í fyrrverandi ríkisstjórn.

Síðan er auðvitað stórmál að nefndin hefur ekki tekið til umfjöllunar það sem varð þinginu tilefni til alvöruumræðu 1962 og 1963 þegar þetta mál var síðast til umfjöllunar hér í þinginu, nefnilega spurninguna: Á þingið að beita matskenndum ákvæðum laganna til þess að draga fyrrverandi ráðherra til refsiábyrgðar? Þá voru þingmenn almennt sammála um að það væri mikið glapræði vegna þess að ef þingið færi inn á þá braut væri hætta á því að pólitískt uppgjör yrði gert að sakamáli og það er nákvæmlega það sem er í uppsiglingu hér, pólitíska uppgjörið út af hruninu er að verða að sakamáli vegna þeirrar tillögu sem hér liggur frammi.

Það þorir enginn að taka umræðuna. Við erum með mál frá starfstíma (Forseti hringir.) þessarar ríkisstjórnar sem hægt er að nota öll sömu rökin um til þess að fara í nýtt ákærumál.