138. löggjafarþing — 167. fundur,  27. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[15:01]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Þetta var fjörleg ræða og ég þakka hv. þingmanni fyrir hana. Það var t.d. prýðilegt dæmi sem hún tók af samgönguráðherranum, sem fær í hendur skýrslu um að tiltekin göng, segjum Hvalfjarðargöngin, séu í hættu, það sé hættulegt að keyra um þau, þau séu ekki nógu góð. Hann stingur þessari skýrslu niður í skúffu og gerir ekkert í málinu, lætur ekki rannsaka það frekar. Hann talar ekki um það á ríkisstjórnarfundi t.d. til að fá fé til frekari rannsókna eða til þeirra viðgerða sem þyrfti. Hvað á að gera við slíkan ráðherra? Bíða í fjögur ár og athuga hvort hann nær kosningu í kjördæmi sínu?

Ég held að kannski séum við einmitt með slíka ráðherra hér undir, menn sem fá um það vitneskju eða mega vita að göngin eru hættuleg en gera ekkert í því og hindra líka aðra ráðherra í að aðhafast í málinu.

En það var ekki þess vegna sem ég kom upp heldur langar mig nánast af sagnfræðilegum ástæðum að vita hvernig það var með hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur og Ragnheiði Ríkharðsdóttur, hvenær þær komust að þeirri niðurstöðu sem lýst er í nefndaráliti þeirra að mannréttindi væru ekki virt og landsdómur þess vegna ekki brúklegur í íslenskum nútíma. Þær sögðu ekkert um þetta, þær skiluðu ekki neins konar áliti eftir átta mánuði í þingmannanefndinni þar sem meiri hlutinn komst að annarri niðurstöðu og í ræðum þeirra var ekki alveg ljóst eftir þetta hvaða afstöðu þær tóku til þessa máls og verður eiginlega fyrst ljóst eftir að minni hluti í allsherjarnefnd skilar skýrslu um málið. Er þetta atburðarásin, forseti?