138. löggjafarþing — 167. fundur,  27. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[16:22]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Nú er alveg ljóst að töluvert var um það fjallað í innlendum og erlendum fjölmiðlum að það væri vandi á lánsfjármarkaði fyrir fjármálastofnanir um allan heim. Það var ekkert leyndarmál. Það þurfti ekki að bíða eftir einhverjum tilteknum skýrslum eða tilteknum fundum til að hafa ástæðu, sérstaklega fyrir þann sem er viðskiptaráðherra, til þess að fara af stað og afla sér upplýsinga. Hitt er svo annað mál að þó að það megi hugsanlega gagnrýna og megi gagnrýna hæstv. þáverandi viðskiptaráðherra fyrir jafnvel mistök og vanrækslu í þessu sambandi er ég í rauninni alveg sammála þeirri niðurstöðu hv. þm. Oddnýjar Harðardóttur og Magnúsar Schrams að ekki sé ástæða til að ákæra hann. Ég tel bara að hið sama eigi við um hina ráðherrana þrjá og ég skil ekki og mér hefur ekki tekist að átta mig á því, þó að hv. þingmenn hafi vísað til eins eða tveggja funda og einnar eða tveggja skýrslna (Forseti hringir.) að þá hefur enginn útskýrt fyrir mér hvernig þeim dettur í hug að ákæra þrjá (Forseti hringir.) en ekki þann sem bar ábyrgð á málefnasviðinu.