138. löggjafarþing — 167. fundur,  27. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[17:01]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í meðferð þessa máls tel ég að menn hafi gerst sekir um að blanda saman hinum alvarlegu afleiðingum hrunsins og síðan athöfnum eða athafnaleysi. Þeir hafa sett samasemmerki þar á milli. Þar sem afleiðingarnar af hruninu séu svo alvarlegar þá hljóti athafnaleysið eða einstakar athafnir að vera alvarlegar líka. Menn verða að gæta sín á þessu. Þess vegna heyrist mér að hv. þingmaður sjái ekki samlíkinguna við þau brot sem ég nefndi.

Að öðru leyti þykist ég geta gengið út frá því að hann mundi styðja ákærur á hendur núverandi ríkisstjórn vegna þeirra brota sem ég hef vitnað til. Það sem ég sagði í tilvitnaðri grein var einfaldlega að eðlilegt væri að slík ákæra kæmi fram ef þingið væri þeirrar skoðunar að ákæra bæri í þessum málum. Ég var að vekja athygli á því, þ.e. fordæmisgildinu.

Varðandi hin matskenndu atriði, sem hv. þingmaður rakti í lok ræðu sinnar, þá er rétt að það liggur í orðalagi viðkomandi ákvæða eins og b-lið 10. gr. að mat verður að fara fram. Einmitt þess vegna fór fram umræða árin 1962–1963 um hversu hættuleg ákvæðin væru. Einmitt af þeirri ástæðu hafa þingmenn látið þessi ákvæði liggja niðri vegna þess að það er svo auðvelt að finna til atvik sem heimfæra má undir viðkomandi ákvæði með einum eða öðrum hætti vegna þess hversu matskennt þetta allt saman er. Þau eru hættuleg, svona ákvæði. Ég er sammála þeim sem þá tóku þátt í umræðunni um að hætta væri á þessu. En á hvað treystu menn sem tóku til máls í umræðunni? Menn treystu á að þingið mundi ekki fara inn á þessar brautir. Það var það sem (Forseti hringir.) menn treystu á og það er það sem ég vara við hér.