138. löggjafarþing — 167. fundur,  27. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[18:17]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Þingmaðurinn tók ekki eftir því að ég tók það sérstaklega fram að ég hefði ekki komist að niðurstöðu um alla ráðherrana. Ég talaði um aðra ríkisstjórn Geirs H. Haardes í heild sinni og að því leyti sem ég talaði um persónur þá talaði ég um forsætisráðherrann sjálfan, skipstjórann á skútunni.

Ég hef lesið greinargerð Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, bæði þessa og þær tvær aðrar sem hér liggja undir í málinu, en það er ekki efni míns máls hér að ræða þátt Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur eða Björgvins Guðna Sigurðssonar heldur ríkisstjórnarinnar í heild sinni undir forustu vissulega þeirra fjögurra sem báru mesta ábyrgð á efnahagsmálum í þessari ríkisstjórn.

Hvað hefði ég gert sem ráðherra? Það er skemmtileg spurning, ágæt spurning. Ég hefði t.d. reynt að bregðast við með því að beita mér fyrir aðgerðum, löggjöf, útgáfu almennra stjórnvaldsfyrirmæla eða töku stjórnvaldsákvarðana á grundvelli gildandi laga í því skyni að afstýra fyrirsjáanlegri hættu fyrir heill ríkisins. Ég hefði t.d. reynt að koma því við að unnin væri heildstæð og fagleg greining á fjárhagslegri áhættu sem ríkið stóð frammi fyrir vegna hættu á fjármálaáfalli sem ég hefði vitað um, sem ég hefði aflað mér upplýsinga um, sem ég hefði ekki reynt að fela inni hjá mér eða þeim sem ég þekkti. Ég hefði líka gengið að, ef ég hefði verið í sama flokki og hv. þm. Pétur Blöndal, þeim vinum sem ég afhenti fyrir nokkrum árum bankakerfið á Íslandi og spurt þá: Af hverju eruð þið að klúðra þessu og hvað er nú til ráða? Ég hefði líka reynt að draga úr stærð íslenska bankakerfisins með þeim ráðum sem til voru og ég benti sérstaklega á, forseti, að ég hefði reynt að flytja Icesave-reikninga Landsbankans í Bretlandi yfir í dótturfélag og ég hefði ekki leyft Landsbankanum að stofna til hins mikla ævintýris síns í Hollandi á starfstíma minnar ríkisstjórnar. Ég hefði líka virkjað samráðshóp stjórnvalda um fjármálastöðugleika sem stofnaður var eftir Fitch-matið og ég hefði (Forseti hringir.) borið þessi mál upp á ráðherrafundum. Ég hefði rætt þau í ríkisstjórn ef einhver hefði truflað mig af öðrum ráðherrum að gera það sem mér bar skylda til að gera sem ráðherra (Forseti hringir.) fyrir hönd almennings á Íslandi.

(Forseti (ÁI): Forseti biður þingmenn að virða tímamörk.)