138. löggjafarþing — 167. fundur,  27. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[18:28]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég sagði það í hálfkæringi þetta með óvinskapinn og það væri einhver hætta á því að menn enduðu þannig eftir þessa umræðu, sem óvinir. Það voru svona hálfkæringsummæli svo því sé haldið til haga og það rati ekki í einhverjar fyrirsagnir í blöðum og væri þá það eina sem kæmi út úr þessari umræðu af minni hálfu í hugum almennings eins og oft vill gerast. Það er best að hafa algeran fyrirvara á því en þingmenn vita hvað ég á við.

En varðandi þetta almennt finnst mér ákaflega gott að hv. þingmaður skuli þó alla vega, og ég bjóst svo sem ekki við öðru, skrifa undir það að ábyrgðin liggur auðvitað mjög víða í þessu.

Það er reyndar eitt sem stýrir líka afstöðu minni í þessu vegna þess að þetta snýst mjög mikið um grundvallarviðhorf til samfélagsins, held ég, og hvaða sjónarhorn maður hefur á það. Ég held að það sé kannski með nokkurri einföldun hægt að segja að hægt sé að líta á félagslegt stórbrotið hrun eins og varð í íslensku samfélagi með tvennum hætti. Annars vegar að hér hafi verið kerfi sem hafi nokkurn veginn virkað og hins vegar að það hafi verið skemmd epli í þessu kerfi. Sem sagt einstaklingar sem tóku á einhverjum ákveðnum tímapunkti rangar ákvarðanir og það fór með kerfið til heljar.

Hins vegar getum við aðhyllst meira þá nálgun að kerfið hafi meira eða minna verið orðið helsjúkt og innan þess hafi verið meira eða minna vel meinandi einstaklingar að reyna að gera eitthvað en vissu ekki hvað og þá nálgun aðhyllist ég í grundvallaratriðum meira. Þetta er kannski munurinn á okkar sjónarhorni. Og mér finnst einmitt ákæran vera dálítið þannig (Forseti hringir.) að hér eru ákveðnir einstaklingar ákærðir fyrir að hafa ekki gert eitthvað mjög óljóst.