138. löggjafarþing — 168. fundur,  28. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[11:11]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Það kom mér nokkuð á óvart sú mikla apólógía sem hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir flutti fyrir ríkisstjórnina 2007–2009 þó að hún hafi setið þar. Ég kýs að spyrja hana um þetta. Hún sagði að í hrunstjórninni hefðu verið teknar ákvarðanir við þær aðstæður sem menn höfðu ekki séð fyrir, en um það stendur einmitt málið. Áttu menn að sjá þær fyrir, máttu þeir sjá þær fyrir, gátu þeir séð þær fyrir? Hvert er hlutverk ráðherra og stjórnsýslu við þær aðstæður sem uppi voru árið 2007–2008, við þær aðstæður að Samfylkingin sjálf, sem bauð fram bæði hv. þingmann og mig þetta árið, fór fram með mikilli gagnrýni á þá efnahagsstefnu sem hafði verið fylgt og á þá hagstjórn? Var það ekki þannig, forseti, að bæði hafði borist ábending frá Bretlandi um Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, samráðshópur var að störfum sérstaklega um þessi mál, Icesave-reikningarnir voru í báðum löndum án þess að vera stöðvaðir og sífelldar (Forseti hringir.) ábendingar komu frá bönkum og ríkisstjórnum annarra landa um að málin væru í voða?