138. löggjafarþing — 169. fundur,  28. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[16:24]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Virðulegi forseti. Ákæruvaldi fylgir mikil ábyrgð. Í sakamálaréttarfari gildir sú meginregla að eingöngu ber að höfða sakamál ef ákæranda virðist það sem fram er komið við rannsókn máls nægilegt eða líklegt til sakfellis. Við mat á því hvort líkur á sakfellingu séu meiri eða minni ber bæði að gæta að formi og efni. Ég tel að málsmeðferðin sem hér hefur verið viðhöfð brjóti í bága við stjórnarskrá og mannréttindasáttmála Evrópu. Í því sambandi vil ég sérstaklega nefna tvennt: Í fyrsta lagi annmarka er snúa að réttarstöðu ráðherranna fyrrverandi sem m.a. leiddi til þess að þeim var gert að fella á sig sök. Í öðru lagi að ráðherrunum fyrrverandi hafi ekki verð gerð grein fyrir sakargiftum með vísan til viðeigandi refsiákvæða þannig að þau gætu borið hönd fyrir höfuð sér. Fleiri annmarka er hægt að nefna sem snúa að formhlið málsins. Hvað efnisþátt málsins varðar tel ég að þær upplýsingar sem fyrir liggja í málinu séu ekki líklegar til sakfellis. Virðulegi forseti. Ég segi því nei.