139. löggjafarþing — 4. fundur,  5. okt. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[17:04]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að segja eftir orðaskipti hv. þingmanna hér áðan að ríkisstjórnin er algjörlega handónýt. Ég tel það ekki óábyrgt að halda því fram, hvort sem hv. þingmanni Birni Vali Gíslasyni líkar það betur eða verr. (Gripið fram í: Hún er vond.) Nei, hún er handónýt, algjörlega handónýt, hún er ekki einu sinni vond. Það er besta (Gripið fram í.) hagsmunamál þjóðarinnar að losna við hana sem fyrst.

Ég vil byrja á því að taka undir það sem komið hefur fram að auðvitað er meginmarkmiðið hjá okkur að ná niður halla ríkissjóðs. Ég tek undir með þeim sem hafa sagt það. Eins og ástandið er í dag greiðum við 15% af tekjum ríkissjóðs í vaxtagjöld. Það er ekki sjálfbært. Það sjá allir. Hins vegar greinir okkur á um hvernig á að fara að því. Ég tek eftir því, virðulegi forseti, í upphafi umræðunnar bæði hjá hæstv. fjármálaráðherra og hæstv . heilbrigðisráðherra, að þetta minnir mig á skattahækkunartillögur ríkisstjórnarinnar í fyrra. Spunaleikurinn sem var í kringum þær, að þær voru boðaðar ógurlega miklar en síðan var dregið í land og sagt: Við þurfum ekki að hækka meira. Ég hef trú á því og ætla að vona að það muni vera restin. Hæstv. ráðherrar sem ég nefndi áðan eru reyndar komnir á harðaflótta frá þessu plaggi hér. Þeir munu segja þegar þetta verður samþykkt í lokin: Við þurftum ekki að skera svona mikið niður eins og til stóð. Það á að reyna að róa fólkið.

Forsendur frumvarpsins, virðulegur forseti, eru veikar. Það þarf ekkert að fara mikið yfir þær miðað við það sem verður gert. Spáð er hagvexti upp á 3,2%. Seðlabankinn spáir 2% í hagvöxt sem er miklu nýrri spá og nær tíma og raunveruleika miðað við þær aðstæður sem við upplifum í dag. Svo er margt annað sem bendir til þess hvað er að gerast í þjóðfélaginu. Það er með þessa handónýtu ríkisstjórn, svo ég noti nú það orð aftur, að hún týnir öllu frá Seðlabankanum hvort sem það eru lögfræðiálit eða annað. Hugsanlega er það þess vegna sem þeir geta ekki notað þessa spá frá þeim. En það er líka svo margt annað.

Ég er hugsi yfir því hvað er að gerast í sambandi við skatttekjurnar á þessu ári. Nú liggur fyrir að skatttekjurnar, miðað við áætlun fjárlagafrumvarpsins árið 2010, dragist verulega saman. Á fyrstu átta mánuðum ársins munar í skatttekjum á einstaklingar, 4,6 milljörðum — 4,6 milljörðum. Samt sem áður er lagt til í frumvarpinu að hækka skatttekjurnar eins og gert var ráð fyrir í upphaflegu áætlunum fjárlagafrumvarpsins 2010.

Ef við skoðum þetta nánar og tökum það dýpra, þá eru staðreyndirnar þær að miðað við áætlunina í frumvarpinu 2010 var spáð meira atvinnuleysi en reyndin varð, sem hefði átt að hjálpa til við að skatttekjurnar yrðu meiri en reiknað var með. Plús það sem ég held að menn eigi eftir að átta sig á og hljóta að skilja að fjárlagafrumvarpið gerir ráð fyrir því að segja upp í kringum 1.500 manns — fimmtán hundruð manns — það þýðir að það mun ekki verða það atvinnuleysi sem er spáð. Það gefur augaleið að forsendurnar og grunnurinn í frumvarpinu er afskaplega, ég ætla ekki að segja afskaplega veikur, svo ég reyni nú að passa mig, (Gripið fram í: Hann er handónýtur.) ja, handónýtur, það getur vel verið.

Síðan er annað. Það kom fram í fréttum núna fyrir tveimur, þremur dögum að skerðingar sem verða á uppsjávarveiðum munu minnka útflutningstekjur um 9,5 milljarða. Ég er ekki að gera kröfur um að það sé inni í frumvarpinu því það er óraunhæft. Hins vegar bendi ég á veikleikann. Það er ekkert í kortunum sem sýnir að hæstv. ríkisstjórn ætli að breyta einhverju hér og koma atvinnulífinu af stað. Það er líka verulegt áhyggjuefni. Það hefur margt verið sagt hér í þingsal. Ef á að búa til ávöxt og minnka niðurskurð og annað verðum við að skapa atvinnutækifæri. Það er nú ekki flóknara en það.

Hvað var lagt til? Svo ég komi nú inn á það. Ég fagnaði því að hæstv. fjármálaráðherra sagði í ræðu sinni fyrr í dag að hann óskaði eftir góðu samstarfi við hv. fjárlaganefnd. Ég ætla svo sannarlega að vona að hann standi við það, hæstv. ráðherrann. Það þarf aðeins að rifja upp, hvað lögðum við fulltrúar sjálfstæðismanna í fjárlaganefnd til? Við lögðum til að skorið yrði niður um 8 milljarða. Það var ekki hlustað á það. Við lögðum til margar breytingar eins og að hægt væri að samnýta skipaflota Landhelgisgæslunnar og Hafrannsóknastofnunar með því að færa skipaflotann frá Hafrannsóknastofnun yfir til Landhelgisgæslunnar. Það var ekki hlustað á það, ekki virt viðlits.

Það var líka bent á það hér. Hver er raunin að verða núna? Á sama tíma og við munum draga saman veiðar á uppsjávarfiski hefur stofnunin tilkynnt að ekki munu verða stundaðar rannsóknir á uppsjávarveiðistofnum. Hefði ekki verið hægt að breyta því með því að hagræða skipaflota Hafrannsóknastofnunar? Það er óskiljanlegt af hverju menn vilja ekki skoða það.

Það var bent á margt annað og það stenst ekkert sem gert var. Það var ekkert gert með það sem við fulltrúar sjálfstæðismanna lögðum til í fjárlaganefndarvinnunni í fyrra. Við komum að því af fullri einurð og heiðarleika, það var ekkert hlustað á það. Við bentum á hallann á Landspítalanum. Hver varð svo raunin? Óraunhæfar kröfur um niðurskurð á Landspítalanum. Það var ekkert hlustað á það. Síðan kemur fréttatilkynning um að búið sé að frysta halann — frysta halann. Fjárlagafrumvarpið 2010 gerði ráð fyrir því að Landspítalinn mundi bæði skera niður um tæpa 3 milljarða og greiða upp hallann sem var upp á 3 milljarða. Þannig er fjárlagafrumvarpið árið 2010. Síðan er gripið til aðgerða á miðju ári 2010 þar sem Landspítalinn heldur sig innan fjárlaga, þá er fjárlagahallinn frystur. Það eru staðreyndir málsins. Þetta bentum við á í fyrra. Það var ekki hlustað neitt á það.

Það er dapurlegt og með ólíkindum að sjá aðförina sem gerð er að mörgum sjúkrastofnunum í landinu. Það er hægt að telja margar upp, t.d. Sauðárkrók og fleiri. Það liggur ekki fyrir hvaða áhrif þetta hefur á samfélagið. Þessu er bara hent út eins og sprengju. Ekkert samráð er haft við forstöðumenn stofnana eða sveitarfélaga, því er bara hent út. Þetta er allt samráðið sem þessi hæstv. ríkisstjórn boðar.

Á sama tíma langar mig að nefna eitt. Við samþykktum fyrir nokkrum dögum eða nokkrum vikum breytingar á Stjórnarráðinu, sameiningu ráðuneyta. Hvað átti að gera? Skila hagræðingu? Eins og hæstv. forsætisráðherra sagði: Sýna gott fordæmi. Nú þurfum við að fara í erfiðan niðurskurð, við þurfum að sýna gott fordæmi ef við viljum spara í yfirstjórn ríkisins. Hver er hagræðingarkrafan á aðalskrifstofu ráðuneytanna? Hver er hún? Í sameinuðu ráðuneyti dómsmála- og samgönguráðuneytisins sem verður innanríkisráðuneytið er hún annars vegar rétt rúm 3% og rétt rúm 4%. Þetta er nú öll hagræðingin og sparnaðurinn í yfirstjórninni. Ekki bara það. Síðan er hæstv. innanríkisráðherra einnig mannréttindaráðherra, sem ég kýs að kalla hann þessa dagana, með tvo aðstoðarmenn. Þannig að það sést alveg hvernig hæstv. ríkisstjórn og forustumenn hennar ganga fram fyrir skjöldu og sýna þá ábyrgð sem þarf að sýna og ætlast til að aðrir geri.

Þegar verið er að skera niður á sjúkrastofnunum landsins og leggja nánast byggðarlögin á hliðina, leyfi ég mér að fullyrða, hafa menn efni á því að setja hálfan milljarð í tónlistarhús, 60 milljónir í sinfóníuhljómsveit og svona mætti lengi telja. Forgangsröðunin liggur alveg klár hjá þessari hæstv. ríkisstjórn. Þetta eru bara staðreyndir málsins.

Því til viðbótar, sem ég skil nú ekki og mun aldrei skilja, er þessi kynjaða fjárlagagerð. Það eru sett í þetta 20 verkefni, ráðinn verkefnisstjóri án auglýsingar, sem er náttúrlega stíll þessarar ríkisstjórnar, og fullt af fólki sett í að greina einhverja vinnu. Ég er ekki búinn að sjá í frumvarpinu hver kostnaðurinn er en í einu ráðuneyti er bent á að hann sé 2,5 milljónir. Þetta kostar í kringum 50 milljónir. Það er alveg hreint með ólíkindum að á sama tíma og menn skoða hvað er að gerast í kynjaðri fjárlagagerð og hagstjórn, á að reka konur út af spítölunum á landsbyggðinni. Þetta eru forgangsverkefnin hvað sem mönnum finnst. Þetta getur varla verið gert til annars en að friða einhverja (Forseti hringir.) öfga-femínista í Vinstri grænum og Samfylkingunni. Önnur getur ástæðan ekki verið því niðurstaðan liggur alveg klár fyrir hvaða áhrif þetta hefur á störf kvenna (Forseti hringir.) á landsbyggðinni.