139. löggjafarþing — 5. fundur,  6. okt. 2010.

skattstefna ríkisstjórnarinnar.

[16:22]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Virðulegi forseti. Skattstefna þessarar ríkisstjórnar er skýr, alveg hvellskýr. Hún stuðlar að því að jafnræðis sé gætt í skattlagningu. Hún stuðlar að því að skattbyrðin dreifist á skattborgarana með sanngjarnari hætti en hingað til hefur verið. Skattstefnan felur það í sér að það eigi að jafna tekjudreifingu í þjóðfélaginu betur en gert hefur verið hingað til, hún eigi að stuðla að félagslegum markmiðum og tryggja félagslegt öryggi íbúa landsins og hún eigi að tryggja það að þjóðin fái sem mestan hluta af arði sínum hverju sinni. Þetta er skattstefna ríkisstjórnarinnar m.a. Hún er ekki dragbítur á efnahagslífið eins og hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson nefndi hér áðan. Það var sú skattstefna hins vegar sem var við lýði árum og áratugum saman. Skattkerfi sem reyndist ónýtt, gjörsamlega ónýtt við að taka á því áfalli sem hér varð, gjörsamlega útflatt og óréttlátt eins og það mögulega gat verið, hlífði eignafólki og efnameira fólki og tekjuháu fólki langt um fram það sem lágtekjufólk hafði.

Skattstefna ríkisstjórnarinnar felst m.a. í þeim breytingum sem voru gerðar á skattkerfinu á síðasta ári og hafa skilað sér — hafa skilað sér í því, virðulegi forseti, sem sjá má í fylgigögnum fjárlagafrumvarpsins í ár og sjá má á álagningu síðasta árs, skattálagningunni, þar sem tekist hefur að lækka skattbyrði á fólk með lægri tekjur og flytja það yfir á þá sem hærri tekjurnar hafa. Um það vitna gögn skattstofunnar, um það vitna gögn Hagstofunnar og um það vitna gögn frá álagningu síðasta árs sem birt var á þessu ári. Þetta er skattstefna ríkisstjórnarinnar, að búa til skattkerfi sem stuðlar að jöfnuði og er fært til að takast á við að afla ríkinu tekna (Gripið fram í: Það tókst ...) líka þegar illa árar. Það tókst ekki. Það tókst ekki, og um það þarf ekki að fjalla mikið meira hér, á tíma þeirrar ríkisstjórnar sem leiddi til hrunsins að lokum.