139. löggjafarþing — 5. fundur,  6. okt. 2010.

skattstefna ríkisstjórnarinnar.

[16:30]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Ég þakka þeim sem tóku þátt í umræðunni. Ekki síst hv. þingmanni Magnúsi Orra Schram sem ég held að mér sé óhætt að segja að gegni mikilvægu hlutverki í Samfylkingunni sem kratinn í Samfylkingunni. Það er ekki illa meint.

Hvað varðar orð hæstv. fjármálaráðherra um skatthlutfall á Íslandi að það sé ekki nema 25–26% af landsframleiðslu, kemur það illa heim og saman við tölur OECD (Fjmrh.: Hjá ríkinu.) alla vega — átti það að vera hjá ríkinu? Hjá ríkinu. Hins vegar er alveg ljóst að hlutfall skattlagningar á Íslandi er mjög hátt í samanburði við önnur lönd.

Í nýútkomnu riti samtaka atvinnulífsins segir að skatttekjur hins opinbera í hlutfalli við landsframleiðslu séu meðal þeirra hæstu í OECD-ríkjunum, þetta var miðað við 2007 og hefur varla batnað síðan, „þegar lögbundin iðgjöld í lífeyrissjóði eru talin með. Það er eðlilegt að telja þau með þar sem sambærileg gjöld eru víðast annars staðar í formi skatta. Hlutfallið þannig reiknað var 48,6% á Íslandi en hæst 48,7% í Danmörku.“ Má telja öruggt að Ísland hafi náð fram úr Danmörku hvað þetta varðar og sé orðið það land í heiminum, alla vega af þróuðum eyríkjum, með hæst hlutfall skatta af landsframleiðslu.

Það hlýtur að vera áhyggjuefni að menn séu enn þá á þeirri braut að hækka skatta. Ég tala nú ekki um eftir að við komumst í verulega kreppu. Eins og hv. þingmaður Tryggvi Þór Herbertsson benti á er það ekki rétt að skattstofnarnir hafi varðveist og hrakspár þar um séu rangar. Verulegur neikvæður hagvöxtur að undanförnu sýnir okkur það og sannar að verið er að eyðileggja skattstofnana með skattkerfinu.