139. löggjafarþing — 6. fundur,  7. okt. 2010.

störf þingsins.

[10:53]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ég kem hingað upp til að ræða tvennt, annars vegar meint lögbrot hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra varðandi úthafsveiðirækjukvótann og síðan þá áhugaverðu staðreynd að hér skuli þingmenn, þá ekki síst stjórnarliðar, ætla að ræða það við ráðherrann. Ég held að það sé tímanna tákn að við í þinginu séum tilbúin að taka mál til okkar og afgreiða þau með þeim hætti sem við teljum bestan og að það sé meiri hluti í þinginu fyrir að afgreiða þau, ég tel að ráðherrarnir verði að sinna framkvæmdarhlutverksstarfi sínu en að þeir stýri okkur ekki.

Ég held að þetta gæti verið áhugavert upphaf og þarf að gerast hratt því að við ætlum fyrst og fremst á næstu dögum í þinginu að velta fyrir okkur erfiðum skuldamálum heimila og fyrirtækja og atvinnumálum sem við þurfum að horfa til og síðan fjárlögunum sem hanga yfir okkur eins og dálítið þung „snjóbyrðisslytta“ sem getur fallið í hausinn á okkur ef við komum okkur ekki saman um að reyna að moka hana frá.

Ég held að í mörgum af þessum málum sé meiri hluti í þinginu til að leysa málin á skynsamlegan hátt og að oft og tíðum séu það ráðherrarnir í ríkisstjórninni sem þvælist fyrir. Ég held að við ættum að taka höndum saman um það á næstu dögum að leysa mörg af þessum málum, skuldamál heimila o.fl., með almennum aðgerðum. Ég tel að það sé meiri hluti fyrir þeim. Ég er sannfærður um það, umræðan hefur verið þannig í langan tíma. Ég tek undir það með öðrum þingmönnum sem komið hafa upp í dag að við eigum að einhenda okkur í það verkefni og ráðherrarnir eiga síðan að framkvæma það sem við segjum að eigi að gera.