139. löggjafarþing — 7. fundur,  7. okt. 2010.

þingsköp Alþingis.

6. mál
[12:32]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég fagna þessu frumvarpi mjög. Ég er mikill áhugamaður um að komið verði festu á þingstörfin og er m.a. meðlimur í þverpólitískri nefnd um fjölskylduvænna þinghald. Ég hef vakið máls á því hér að eina sem er fast í hendi í upphafi viku er hvað er í matinn í mötuneytinu og meira að segja getur það breyst og þá veit maður varla neitt um hvað er fyrirliggjandi í þinginu. Mér finnst þessi tillaga því miða í þá átt að koma á meiri festu, að maður viti fyrir fram hvað umræðan mun taka langan tíma og geti þá undirbúið sig betur og þess háttar. Það finnst mér allt til bóta.

Ég hef áhyggjur af einu. Ég upplifi að ég sé hér einn af 63 plús, eftir því hvað eru margir ráðherrar utan þings, ásamt forsetanum sem hef aðgang að þessari pontu. Fleiri Íslendingar hafa það ekki. Þetta er í rauninni inntak starfs míns, að vera kjörinn á þing er að hafa aðgang að þessari pontu. Mér finnst mjög mikilvægt að ekki sé gengið á þann rétt þannig að maður lendi í því að fá ekki að tjá sig vegna þess að það er inntak starfsins. Ég hef svolitlar áhyggjur af því á sama tíma og ég er mjög fylgjandi því að takmarka ræðutíma, ég lít ekki svo á að það sé endilega rétt að menn þurfi að tala heillengi, að fá ekki tækifæri til að tjá mig í öllum málum — það er ákvæðið í frumvarpinu um að þingflokkar eigi að ákveða ræðutímann, að ræðutímanum sé deilt á milli þingflokka. Það er vel hægt að ímynda sér að þingmenn séu undir í þingflokkum sínum í einhverjum málum og þar myndist þá stemning fyrir því og með lagaheimild að útiloka þá frá umræðu. Það finnst mér alls ekki mega gerast. Mér fannst athyglisvert í máli hv. þm. Ólafs Þórs (Forseti hringir.) Gunnarssonar þegar hann vitnaði til Bandaríkjanna, að mig minnir, þar sem þingmönnunum var úthlutað ræðutíma og réðu hvort þeir nýttu hann eða ekki. Sæi hv. þingmaður fyrir sér eitthvert svoleiðis fyrirkomulag?